Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 26. 2015 | 20:15

GM: Ríkharður Már og Sigrún Linda efnilegust

Það var ekki bara Kristján Þór Einarsson sem hlaut viðurkenningu við kjör Íþróttamanns Mosfellsbæjar 2014. Fjöldi viðurkenninga fyrir góðan árangur féll kylfingum í skaut og er ljóst að framtíð golfsins er án efa björt í Mosfellsbæ. Við munum segja frá þessum viðurkenningum næstu daga og byrjum á þeim efnilegustu árið 2014.

Sigrún Linda Baldursdóttir voru veitt verðlaun fyrir að vera efnilegasti kvennkylfingur Mosfellsbæjar þetta árið. Sigrún átti frábært ár í keppnisgolfi en hún varð klúbbmeistari í flokki stúlkna 14 ára og yngri og jafnframt stigameistari á Áskorendamótaröð Íslandsbanka í flokki 14 ára og yngri. Sigrún var einnig í stúlknasveit Kjalar í flokki 18 ára og yngri. Sigrún er mjög samviskusöm og leggur hart að sér við æfingar og á framtíðina fyrir sér.

Efnilegasti karlkylfingur Mosfellsbæjar var svo valinn Ragnar Már Ríkarðsson. Ragnar Már spilaði vel á Íslandsbankamótaröð unglinga í sumar. Hann var í toppbaráttunni á flestum mótum og náði nokkrum sinnum á verðlaunapall. Frammistaða hans í sumar skilaði honum sæti í Framtíðarhóp GSÍ fyrir árið 2015. Ragnar sigraði sinn flokk á Mótaröð GKj með yfirburðum og á einnig framtíðina fyrir sér.