Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 20. 2015 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LET 2015: Lien Willems (16/34)

Þann 17.-21. desember 2014 fór fram lokaúrtökumót fyrir Evrópumótaröð kvenna í Samanah Al Maaden golfklúbbnum í Marokkó.

Nánar tiltekið 2015 Lalla Aicha Tour School Final Qualifying eins og mótið heitir á ensku.

Meðal þátttakenda á lokaúrtökumótinu í ár voru tveir íslenskir kvenkylfingar Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR og Valdís Þóra Jónsdóttir, GL, en þær komust því miður ekki í hóp þeirra sem hlutu keppnisrétt á LET 2015.

Golf 1 mun, eins og undanfarin ár kynna allar stúlkur sem hlutu keppnisrétt á Evrópumótaröð kvenna (ens. Ladies European Tour skammst. LET) í gegnum lokaúrtökumótið, en í þetta sinn voru þær 34.

Nú hafa allar stúlkur verið kynntar sem urðu í 26.-34. sætinu, allar á samtals 1 yfir pari.

Næst verða þær 7 stúlkur kynntar sem urðu í 19.-25. sætinu, allar á samtals sléttu pari, en það eru: finnsku stúlkurnar Marika Voss, Elina Numenpaa og Linda Henriksson; Lien Willems frá Belgíu; Alex Peters frá Englandi; Nina Muehl frá Austurríki og Marta Sanz frá Spáni.

Sú sem kynnt verður í dag er belgíska stúlkan Lien Willems.  Hún var á samtals sléttu pari, skorinu 360 högg (79 69 74 68 70)

Lien Willems fæddist 3. júlí 1987 og er því 27 ára.

Hún er frá Antwerpen í Belgíu.

Heimaklúbbur hennar í Belgíu  er  Club der Rinkven International Golf & Country Club.

Áður en hún fékk kortið sitt á Evrópumótaröðina gegnum Lalla Aicha Tour Schoool, spilaði Willems á LET ACCESS.

Hún hefir einu sinni áður komist í gegnum Q-school á Evrópumótaröð kvenna, en það var árið 2007, og spilaði hún því í fyrsta skipti á LET 2008.

Árið 2012 varð hún í 6. sæti á Terre Blanche mótinu í Nice, Frakklandi og um miðjan mars var hún í 5. sæti á peningalista LET ACCESS, ásamt Maricke Nivard.

Áhugamál Lien eru krossgátur, að búa til mat og vera í ræktinni.

Fræðast má meira um Lien Willems á glæsilegri heimasíðu hennar með því að SMELLA HÉR: