Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 17. 2015 | 10:15

PGA: 16 ára áhugamaður nær niðurskurði á Sony Open

Kyle Suppa, 16 ára áhugamaður frá Hawaii náði niðurskurði á Sony Open og er nú 10 höggum á eftir forystumönnunum í mótinu.

Hefð er fyrir að ungir kylfingar fái að taka þátt í Sony Open; 2004 fékk Michelle Wie að spila með körlunum í PGA Tour móti á Sony Open og 2007 náði Tadd Fujikawa ágætisárangri í mótinu.

Nú í ár er það Kyle Suppa.  Hann fékk keppnisrétt í úrtökumóti fyrir áhugamenn í nóvember þar sem aðalverðlaunin voru þátttaka í Sony Open.

Og Suppa er búinn að standa sig vel – hann hefir átt tvo hringi undir 70 þ.e. er búinn að spila báða dagana á 69 þ.e. 1 undir pari og er því samtals á 2 undir pari, sem var nákvæmlega skorið sem þurfti til að komast í gegnum niðurskurð.   Suppa hefir aðeins fengið 1 skolla á 36 holum í mótinu.

Suppa kláraði hringinn fljótt og varð að bíða taugatrekkjandi bið til að sjá hvort skorið hans upp á 2 undir pari dygði til að komast í gegn.

Þar sem meira en 78 kylfingar komust gegnum niðurskurð mun verða 2. niðurskurður eftir 3. hring í dag og verður miðað við að 70 efstu komist í gegn.

Skyldi Suppa vera þar á meðal?

Suppa er næstefstibekkingur (ens.: junior) í  Punahou School í Honolulu, en meðal frægra sem numið hafa þar er m.a. Barack Obama, Bandaríkjaforseti. Suppa sigraði á síðasta ári, 2014, Hawaii State Amateur; átti 6 högg á næsta mann og hefir nú þegar skuldbundið sig til þess að spila í bandaríska háskólagolfinu á næsta ári, 2016, með the University of Southern California.

Suppa er því greinilega framtíðarmaður í bandaríska golfinu!!!