Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 6. 2015 | 10:30

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2015: Rikard Karlberg (19/27)

Það var sænski kylfingurinn Rikard Karlberg sem varð í 9. sæti á lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór á PGA Catalunya golfstaðnum í Girona á Spáni  15.-20. nóvember 2014.

Birgir Leifur okkar Hafþórsson spilaði einnig í lokaúrtökumótinu en komst því miður ekki í gegnum niðurskurð að þessu sinni.

Rikard Karlberg er fæddur í 1. desember 1986 og er því 28 ára.

Árið 2007 varð Karlberg í efsta sæti á stigalista Nordic Golf League þar sem hann hafði sigrað í 4 mótum og þannig vann hann sér inn kortið sitt á Áskorendamótaröð Evrópu.

Hann var nýliði á Evrópumótaröðinni 2014 þó hann hafi þegar tekið þátt í 70 mótum á Evrópumótaröðinni; aðallega gegnum mót sín, sem hann tók þátt í á Áskorendamótaröðinni en einnig keppti hann á Asíutúrnum í mörgum mótum sem voru samvinnuverkefni við Evrópumótaröðina.

Karlberg hefir haft fullan keppnisrétt á Asíutúrnum frá árinu 2010 og hefir sigrað tvívegis á þeirri mótaröð. Með  sigrum sínum á Asíutúrnum vann Karlberg sér inn nýliðaverðlaun Asíutúrsins; en fyrri sigurinn kom á SAIL Open 2. apríl 2010, en þar átti Karlberg 5 högg á þann sem varð í 2. sæti þ.e. Indverjann Shiv Kapur og annar sigurinn kom 5. desember 2010 þegar Karlberg vann Hero Honda Indian Open.

Það var stöðugur, reynslumikill og fallegur leikur Karlberg á lokaúrtökumótinu 2014 sem tryggði honum 9. kortið og fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni, keppnistímabilið 2014-2015.

Besti árangur Karlberg til dagsins í dag er á Singapore Open þar sem hann varð jafn í 3. sæti ásamt Graeme McDowell, og 4 höggum á eftir sigurvegara mótsins Adam Scott, en þessi árangur Karlberg færði honum álitlega upphæð fyrir 3. sætið þ.e. €240,907.