Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 6. 2015 | 06:45

Rory: „Líkami minn hatar mig“

Rory McIlroy, nr. 1 á heimslistanum, er í sömu stöðu og margir nú í blálok jóla, eftir að hafa hlaðið á sig jólakræsingunum og fagnað glæsilegum sigrum sínum á liðnu ári en Rory vann sem kunnugt er tvö risamót golfsins Opna breska og PGA Championship risamótin, 2014.

Nú er komið að skuldadögunum; hátíðarkílóin verða að fjúka.

Rory er byrjaður að æfa af krafti til þess að vera í sem bestu formi fyrir fyrsta mót sitt á þessu ári, Abu Dhabi HSBC Golf Championship, en það hefst  í Abu Dhabi, 15. janúar þ.e. eftir 9 daga.

Meðal þeirra sem þáttt taka í mótinu eru nr. 2 á heimslistanum, Henrik Stenson, nr. 5 Justin Rose og nr. 12 og þrefaldur sigurvegari í Abu Dhabi Martin Kaymer, sem líður ansi vel á þessum slóðum.

Rickie Fowler tekur í fyrsta sinn þátt í Miðausturlandasveiflu Evrópumótaraðarinnar og eins verða menn á borð við Jamie Donaldson, Victor Dubuisson, Thomas Björn og Stephen Gallacher meðal keppendanna 126.

Rory birti mynd af svitastorknum Nike-bol sínum eftir fyrstu hörkuæfinguna á árinu 2015, á Twitter og skrifaði með: „Búið að færa til bókar fyrsta líkamsrætartímann …. Líkami minn hatar mig opinberlega eftir jólin!“

„Fyrstu æfingarnar og sveiflurnar á æfingasvæðinu á árinu 2015, eftir að hafa ekki snert kylfu í 4 vikur voru ansi áhugaverðar!“