Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 5. 2015 | 12:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2015: Andrew Dodt (18/27)

Það var ástralski kylfingurinn Andrew Dodt sem varð í 10. sæti á lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór á PGA Catalunya golfstaðnum í Girona á Spáni  15.-20. nóvember 2014.

Birgir Leifur okkar Hafþórsson spilaði einnig í lokaúrtökumótinu en komst því miður ekki í gegnum niðurskurð að þessu sinni.

Andrew Dodt er fæddur í Brisbane í Queensland, Ástralíu 26. janúar 1986 og er því 28 ára.

Dodt lærði að spila golf 4 ára í  Gatton golfklúbbnum, sem er mjög nálægt heimili hans í Gatton, Ástralíu.

Dodt var í golflandsliði Ástrala (ens. Golf Australia National Squad) og vann mörg mót áhugamanna þ.á.m. varð hann ástralskur meistari áhugamanna í höggleik 2007 (ens. Australian Amateur Stroke Play). Það veitti Dodt tækifæri til að spila í  MFS Australian Open árið 2007 í The Australian Golf Club í desember það ár. Eftir mótið gerðist Dodt atvinnumaður í golfi og spilaði fyrsta keppnistímabil sitt á Asíutúrnum 2008.

Nýliðaár sitt á Asíutúrnum var Dodt í 43. sæti á stigalistanum og bættti sig og varð í 15. sti árið 2009. Hann vann fyrsta mót sitt sem atvinnumaður árið 2010 þegar hann sigraði á Indlandi á Avantha Masters, en mótið er samvinnuverkefni Asíutúrsins og Evróputúrsins.

Þar með var Dodt kominn með spilarétt á Evrópumótaröðinni 2011 og 2012.

Árið 2013 giftist Andrew Dodt eiginkonu sinni Ashleigh.

Það keppnistímabil 2013-2014 spilaði Dodt ekki á Evróputúrnum heldur  á Asíu og Ástralasíutúrunum og vann m.a. 2. mót sitt sem atvinnumanns á síðarnefnda túrnum  þ.e. á Isuzu Queensland Open.

Í nóvember 2014 var ljóst að Dodt hlyti fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðina gegnum lokaúrtökumótið og spilar því á einni bestu golfmótaröð heims keppnistímbilið 2014-2015.

Sem stendur er Dodt í 303. sæti á heimslistanum yfir bestu atvinnukylfinga heims.