Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 5. 2015 | 00:01

Áramótakveðja Ólafs Björns

Á heimasíðu Ólafs Björns Loftssonar, NK, er áramótakveðja hans auk þess sem hann reifar markmið sín fyrir nýja árið 2015, sem er eftirfarandi:

Ég óska ykkur gleðilegs nýs árs, með þakklæti fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og fyrir ómetanlegan stuðning. Sértsaklega vil ég þó koma á framfæri þökkum til Forskots, afrekssjóð kylfinga sem samanstendur af Eimskip, Icelandair Group, Íslandsbanka, Valitor og Golfsambandi Íslands. Stuðningur þeirra hefur reynst mér gífurlega vel og er algjör forsenda fyrir starfi mínu sem atvinnukylfingur.

Undanfarnar vikur hef ég unnið vel með mínum þjálfurum hér á Íslandi ásamt því að fara í tveggja vikna æfingaferð til Flórída fyrr í mánuðinum. Aðaláherslur mínar þessa dagana fara í að virkja líkamann betur sem stuðlar að bættri tækni í sveiflunni. Sveiflan mín stjórnast of mikið af hreyfingum handleggjanna sem gefur mér lítinn kraft og er ég þónokkuð háður tímasetningu í höggunum. Ég er á réttri leið og er að ná góðum framförum.

Ég hef tryggt mér fullan þátttökurétt á Nordic Golf Leage á næsta ári og hefst keppnistímabilið í febrúar á Spáni. Ég er mjög ánægður með að geta skipulagt mótaáætlunina með miklum fyrirvara í fyrsta sinn. Þar að auki á ég möguleika á að fá einhver mót á Áskorendamótaröðinni þannig að það er full ástæða fyrir tilhlökkun.

Aðalmarkmiðið mitt á næsta ári er að vinna mér inn þátttökurétt á evrópsku mótaröðinni í golfi. Önnur markmið á næsta ári eru til að mynda að öðlast þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni, sigra á mótum á Nordic Golf League mótaröðinni og enda á meðal fimm efstu á peningalista Nordic Golf League mótaröðinni sem gefur einmitt þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni. Til þess að ná þessum markmiðum hef ég sett niður ítarlegan lista af atriðum sem ég mun vinna í á markvissan hátt í samvinnu við mína þjálfara.

Ég viðurkenni að það er oft erfitt þegar hlutirnir ganga ekki upp en ég læri stöðugt betur og betur inn á minn leik og hvaða þætti ég má bæta. Einnig læri ég jafnt og þétt hvaða góðu eiginleika þeir kylfingar hafa sem njóta velgengni. Af þessum sökum mæti ég nánast undantekningarlaust fullur sjálfstrausts til æfinga og keppni. Trúin mín á að ná alla leið og upplifa mína drauma styrktist og hún mun halda áfram að gera það.

Ég hef komist að því að ég spila mitt besta golf þegar ég næ að einfalda hugsanir mínar úti á golfvellinum og halda mér í núinu. Ég hef ekki góða reynslu að því að hugsa um árangursmarkmiðin þegar ég keppi heldur þarf ég að einblína eingöngu á næsta golfhögg sem er jú mitt mikilvægasta högg hverju sinni. Þótt það reynist oft erfitt þá finnst mér nauðsynlegt að takmarka hugsanirnar mínar við sveifluferlið og forðast að hugsa um hugsanlegar útkomur eða afleiðingar slæmra högga eða móta. Ég ætla að leggja mikla áherslu á þetta á næsta ári þar sem ég er viss um að gæði spilamennskunnar batni.

Gleðilega hátíð og njótið áramótanna!

Ólafur Björn Loftsson