Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 2. 2015 | 10:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2015: Espen Kofstad (16/27)

Það var norski frændi okkar Espen Kofstad sem varð í 12. sæti á lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór á PGA Catalunya golfstaðnum í Girona á Spáni í nóvember s.l.

Birgir Leifur okkar Hafþórsson spilaði einnig í lokaúrtökumótinu en komst því miður ekki í gegnum niðurskurð að þessu sinni.

Espen Kofstad er fæddur 11. ágúst 1987 í Osló, Noregi og er því 27 ára.

Kofstad byrjaði að spila golf 5 ára á golfvelli í Svíþjóð sem var 15 mínútna bátsferð frá sumarbústað Kofstad-fjölskyldunnar í Noregi.

Hann fékk golfbakteríuna snemma og var snemma farinn að taka þátt í áhugamannamótum.  Ferill hans hefði þó getað tekið aðra stefnu hefði hann farið í fótspor móður sinnar, sem var Evrópumeistari kvenna á skíðum í kringum 1970.

Kofstad sigraði glæsilega á Apulia San Domenico Grand Final 2012, en með því varð hann efstur á Áskorendamótaröðinni það ár og er það í eina skiptið frá 2010 að Kofstad hefir ekki þurft í Q-school.

Hann vann síðan fyrsta sigur sinn sem atvinnumaður fyrr á 2012 tímabilinu þ.e.  the Double Tree by Hilton Acaya Open, þar sem hann lauk hringnum með erni og fugli og átti 1 högg á  JB Hansen.

Kofstad varð í 3. sæti í the English Challenge 7 dögum síðar og varð t-5 í  the Finnish Challenge vikuna þar á eftir, en með sigrinu á Ítalíu hlaut hann mikið sjálfstraust.

Á fyrsta keppnistímabili sínu á Evróputúrnum varð hann 1 sinni meðal efstu 10 þ.e. á  Open de España, en það var samt ekki nóg til þess að hann héldi korti sínu.

Tími hans frá Evróputúrnum var þó stuttur vegna frábærs árangurs hans á lokaúrtökumótinu 2014 þar sem hann hlaut s.s. segir 12. kortið í PGA Catalunya Resort.