Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 4. 2014 | 14:00

Evróputúrinn: Henrik Stenson kylfingur nóvembermánaðar

Henrik Stenson hefir verið útnefndur kylfingur nóvembermánaðar á Evróputúrnum eftir glæstan sigur hans á DP World Tour Championship, í Dubaí.

Stenson hlaut ágrafinn verðlaunadisk og risaflösku af Moët & Chandon kampavín fyrir útnefninguna, en honum tókst að verja titil sinn á þessu ábatasamasta móti Evrópumótaraðarinnar.

Við þetta tækifæri sagði Stenson: „Það var frábært að enda keppnistímabilið á Evróputúrnum svona eftir að sigra aftur í Dubaí og nú með því að verða kylfingur mánaðarins.  Þetta hlýtur að hafa verið mjög naumt milli mín og Brooks (Koepka – þ.e. nýliða Evrópumótaraðarinnar) eftir að hann sigraði svo glæsilega í Tyrklandi – en ég er mjög þakklátur fyrir að hafa verið valinn.“

„Ég hef unnið til nokkurra verðlauna, en ég verð aldrei þreyttur á að sigra.  Það fær mann til þess að vilja leggja enn harðar að sér til þess að njóta þessarar sigur- tilfinningar aftur og aftur. Vonandi get ég bætt við nokkrum verðlaunagripum í skápinn á næsta tímabili.“

Eftirfarandi kylfingar hafa líka hlotið sæmdarheitið kylfingur mánaðarins á 2013-2014 keppnistímabilinu:
Miguel Ángel Jiménez frá Spáni (desember), Stephen Gallacher frá Skotlandi (janúar), Victor Dubuission frá Frakklandi (febrúar), Jamie Donaldson frá Wales (mars), Alexander Levy  frá Frakklandi (apríl), Rory McIlroy  frá N-Írlandi (maí, júlí og ágúst), Martin Kaymer frá Þýskalandi (júní), Paul McGinley frá Írlandi (september) og enski kylfingurinn Oliver Wilson (október).