Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 12. 2014 | 17:00

Ítalía sækir um að fá að halda Ryder bikarinn 2022 – Tyrkland dregur tilbaka umsókn sína

Ítalía hefir sótt um að fá að halda Ryder bikars keppnina árið 2022.

Völlurinn sem Ítalía stingur upp á að mótið fari fram á er í Guidonia, norðaustur af Róm, á Marco Simone en þar fór Opna ítalska árið 1994 fram þar sem Argentínumaðurinn Eduardo Romero sigraði.

Frá Marco Simone golfvellinum

Frá Marco Simone golfvellinum

Tyrkland á hinn bóginn hefir dregið umsókn sína um að fá að halda keppnina það ár tilbaka vegna þess m.a. að hún hefði þýtt að fella yrði 15.000 tré í námunda við keppnisvöllinn.

Tyrkland var búið að stinga upp á að keppnin færi fram á Montgomerie Maxx Royal vellinum þar sem  Turkish Airlines Open, mót á Evrópumótaröðinni mun fara fram nú í vikunni.  Montgomerie er hins vegar hluti golfstaðar og ekki hannaður fyrir risamót sagði Ahmet Agaoglu, forseti tyrkneska golfsambandsins.

Það eru auk þess engir áhorfendapallar og ekkert pláss fyrir þá vegna fjölda trjáa sagði Agaoglu.  Hann sagði að ómögulegt hefði verið að fá leyfi til að fella niður þann fjölda trjáa sem krafist hefði verið og því ekki hægt að halda keppnina.

Agaoglu sagði hins vegar að Tyrkland myndi sækja um að fá að halda Ryder bikars keppnina 2026 og byggja nýjan golfvöll, sem myndi kosta á bilinu 30-40 evra (4650 -6200 milljónir íslenskra króna).

Eftir að Tyrkland dró tilbaka umsókn sína um að halda Ryder keppnina 2022 eru aðeins 6 lönd eftir sem sækjast eftir að fá að halda mótið: Austurríki, Danmörk, Þýskaland, Ítalía, Portúgal og Spánn.

Starfsmenn Ryder Cup munu skoða alla vellina til loka ársins. Formlega umsóknir verða að hafa borist um miðjan febrúar á næsta ári og tilkynnt verður um hver heldur Ryder bikarinn árið 2022, seinna á árinu 2015.