Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 8. 2014 | 14:59

Rickie Fowler stendur með Tom Watson

Rickie Fowler er sá nýjasti til að stíga fram og verja fyrirliða sinn Tom Watson í síðustu Ryder bikarskeppni, en lið Bandaríkjanna tapaði s.s. kunnugt er 16 1/2 – 11 1/2 gegn frábæru liði Evrópu, en Watson hefir m.a. sætt gagnrýni frá Phil Mickelson fyrir fyrirliðastíl sinn.

Fowler byrjaði á því að segja að það sem væri sagt í búningsherbergjum ætti að hans mati ekki að fara lengri.  Síðan bætti hann við:

„Mér fannst Tom (Watson) standa sig vel í að tala við strákana. Hann gerði það nokkrum sinnum og mér líkaði vel tíminn sem við vörðum saman. Ég virði hann; hann er goðsögn. Sumt hefir farið út yfir allan þjófabálk. En augljóslega spiluðum við ekki eins vel og við þurftum til sigurs.“

Fowler er nú í bandaríska „task force-inu“,  sem er nefnd 11 kylfinga sem á að ákveða fyrirliðastefnuna sem taka á fyrir næstu keppni í Hazeltine, Minnesota, árið 2016.  Í nefndinni eiga m.a. einnig sæti Tiger og Phil Mickelson.

„Ég hlakka til að setjast niður með strákunum og sjá hvað hver og einn hefir að segja,“ sagði Fowler.  „Augljóslega viljum við sigra (Ryder) bikarinn og það er ekki eins og skort hafi á hvatningu eða neitt þess háttar.  Allir eru sér meðvitaðir um þetta og alla langar til að vinna.“