Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 2. 2014 | 10:00

Hver er kylfingurinn: Marcel Siem?

Marcel Siem sigraði í dag , 2. nóvember 2014 á BMW Masters í Shanghaí, Kína og er þetta 4. sigur hans á Evrópumótaröðinni.

En hver er kylfingurinn?

Siem er fæddur 15. júlí 1980  í Mettmann Þýskalandi og er því 34 ára.

Hann gerðist atvinnumaður árið 2000 og komst á Evrópumótaröðina 2002.  Fyrsti sigur hans kom á Dunhill Championship árið 2004.

Síem varð síðan að bíða í heil 8 ár eftir næsta sigri en sá vannst árið 2012 í the Alstom Open de France. Með þessum sigri ávann Siem sér m.a. þátttökurétt í Opna breska risamótinu og fyrsta keppnisrétt sinn í heimsmóti þ.e. WGC-Bridgestone Invitational. Besti árangur hans á heimslistanum náðist árið 2012 en þá var Siem í 14. sæti á heimslistanum.

Í mars 2013 vann Siem þriðja sigur sinn á Evrópumótaröðinni þ.e. á Trophée Hassan II í Marokkó. Þar átti hann 3 högg á David Horsey og Mikko Ilonen. Marcel Siem var þetta keppnistímabil í 51. sæti  og missti þar með rétt af fyrsta boðsmiðanum á Masters mótið.

Siem keppti fyrir Þýskalands hönd í heimsbikarnum árin 2003, 2004 og 2006. Árið 2006 lék Siem ásamt Bernhard Langer og þeir tveir unnu sigur fyrir Þýskaland í heimsbikarnum.