Ragnheiður Jónsdóttir | október. 15. 2014 | 18:00

Nýju strákarnir á PGA Tour 2015: JJ Henry (17/50)

JJ Henry var sá 35. til þess að fá kortið sitt á PGA Tour fyrir keppnistímabilið 2014-2015.

Ronald „J.J.“ Henry III fæddist 2. apríl 1975 í Fairfield, Conneticut og er því 39 ára.

Hann spilaði í bandaríska háskólagolfinu með golfliði Texas Christian University, og varð m.a. í 2. sæti áirð 1998 í NCAA Division I Men’s Golf Championships og gerðist atvinnumaður seinna það ár.

JJ var kominn á Nationwide Tour (forvera Web.com Tour) 1999, og eftir að sigra á BUY.COM Knoxville Open árið 2000, komst JJ í fyrsta sinn á PGA Tour árið 2001.   Fyrsti  PGA Tour sigur hans kom 2006 á Buick Championship; og JJ varð fyrsti kylfingurinn frá Connecticut til þess að sigra í mótinu. JJ var í Ryder bikars liði Bandaríkjanna 2006 og hélt jöfnu í öllum 3 leikjunum sem hann lék í.

JJ var nálægt því að sigra á Byron Nelson Championship árið 2012 þegar hann var með 1 höggs forystu þegar aðeins voru eftir 2 holur.   Skrambi á 71.  holu varð hins vegar til þess að hann lauk keppni 2 höggum á eftir sigurvegaranum  Jason Dufner. Seinna þetta ár (2012), sigraði JJ í 2. sinn á PGA Tour á  Reno–Tahoe Open. Í mótinu er spilað eftir Stableford punktakerfinu og Henry átti 1 punkt á Brasílíu-búann Alexandre Rocha. Með þessu öðlaðist JJ þátttökurétt í  PGA Championship sem fram fór vikuna á eftir.

JJ Henry býr með konu sinni Lee og tveimur börnum þeirra í Fort Worth, Texas.