Ragnheiður Jónsdóttir | september. 20. 2014 | 09:00

PGA: Lokamótið í Web.com Tour Finals hálfnað – Upprifjun á Web.com Tour Finals

Síðasta mótið af 4 í Web.com Tour Finals er nú hálfnað en það er Web.com Tour Championship, sem fram fer á TPC Sawgrass á Ponte Vedra Beach í Flórída.

Zac Blair er efstur á 12 undir pari, eftir 2 hringi en á þó eftir að klára hringinn (3 holur), þar sem keppni frestaðist í gær.

Sjá má stöðuna eftir 2. dag Web.com Tour Championship í því með því að SMELLA HÉR: 

Til þess að rifja upp hvað Web.com Tour Finals eru þá er það þannig að í ársbyrjun 2013 breyttust reglurnar um hverjir kæmust inn á og hlytu keppnisrétt á sterkustu mótaröð heims: PGA mótaröðina.  Nú er orðið mun erfiðara að komast inn á PGA mótaröðina en áður.

Í mjög einfölduðu máli þá eru það 50 kylfingar sem á ári hverju hljóta keppnisrétt á PGA Tour.

Eftir sem áður eru það 25 efstu á peningalista 2. deildar PGA þ.e. Web.com Tour sem hljóta keppnisrétt á PGA Tour.

75 efstu á peningalista Web.com Tour og þeir sem urðu í 126.-200. sæti á peningalista PGA Tour + plús þeir sem eru með jafnmörg stig og þeir sem eru í 126.-200. sæti á PGA Tour keppa síðan um önnur 25 sæti á PGA Tour á 4 móta mótaröð sem ber heitið Web.com Tour Finals.

Síðasta mótið af 4 í þessari mótaröð fer einmitt fram nú um helgina og er nú hálfnað eins og áður segir Web.com Tour Championship.  Hin 3 mótin voru:

1. mótið í Web.com Tour Finals 2014:  Hotel Fitness Championship, sem fram fór í  Sycamore Hills GC, Fort Wayne, Indiana. Sigurvegari: Bud Cauley.

2. mótið í Web.com Tour Finals 2014: Chiquita Classic, sem fram fór í River Run CC, Davidson, Norður-Karólínu. Sigurvegari: Adam Hadwin.

3. mótið í Web.com Tour Finals 2014: Nationwide Children’s Hospital Championship sem fram fór í Ohio State University GC, í Columbus, Ohio. Sigurvegari: Justin Thomas.

4. mótið og LOKAMÓTIÐ í Web.com Tour Finals 2014 SEM NÚ STENDUR YFIR:  er Web.com Tour Championship, sem fram fer á TPC Sawgrass, Ponte Vedra Beach, FLórída.

Að 4. og síðasta mótinu loknu liggur fyrir hvaða 50 kylfingar hljóta keppnisrétt á PGA Tour og mun Golf 1 þá hefja kynningu á „nýju“ strákunum á PGA, eins og gert hefir verið undanfarin ár.  Nýju er hér haft innan gæsalappa, því oft er það svo að þetta eru bara gamlar kempur, sem eru að komast inn á mótaröðina  að nýju með þessum hætti!

Í raun eru það aðeins 75 efstu á peningalista Web.com Tour sem eiga færi á að komast inn á PGA Tour og af þeim er 25 efstu tryggður keppnisrétturinn eins og áður sagði.  Úrtökumót fara síðan fram í Bandaríkjunum í desember um að komast á Web.com Tour, en eina leiðin í dag til að hljóta keppnisrétt á PGA Tour er að hafa fyrst spilað í 1 ár á Web.com og staðið sig nógu vel þar til þess að vera meðal 75 efstu.