Ragnheiður Jónsdóttir | september. 18. 2014 | 08:30

Samstarfi Scott og Williams lokið

Fyrrum nr. 1 á heimslistanum Adam Scott hefir sent frá sér fréttatilkynningu þar sem hann tilkynnir að samstafi hans og kylfusveins hans Steve Williams sé lokið.

Scott og Williams hófu samstarf sumarið 2011 og náðu fljótt vel saman t.a.m. þegar Scott sigraði á Bridgestone Invitational heimsmótinu í ágúst það ár.

Með Williams á pokanum hefir Soctt unnið 4 sinnum á PGA Tour – þ.á.m. fyrsta risamótstitil sinn árið 2013 þegar hann sigraði á Masters – en það ár (2013) var hann einnig nr. 1 á heimslistanum í fyrsta sinn á ferli sínum.

Auk þess sigraði hinn 34 ára Scott bæði Australian Masters & PGA heima fyrir í Ástralíu og komst nálægt því að ná því, sem nefnt er  the Triple Crown þ.e. að sigra á 3 helstu mótum Ástralíu, en það var aðeins Rory McIlory sem kom í veg fyrir að hann ynni á 3. og síðasta móti kórónunnar síðla árs 2013, en það var eina mót Rory, það ár, sem hann vann.

Um samstarfslok sín og Williams sagði Scott:

„Forgangsröðun okkar er önnur þannig að við höfum ákveðið að þetta sé réttii tíminn til að ljúka samstarfi okkar,“ sagði Scott í fréttatilkynningunni.

„Steve hefir verið stór hluti liðs míns á tímabili, þar sem ég hef náð einhverjum stærstu markmiðum lífs míns í golfinu. Trúnaður hans og fagmennska er hafin yfir allan vafa og ég met vináttu hans mikils.“

Williams, 50 ára, sem einna frægastur er fyrir að hafa verið á pokanum hjá Tiger Woods sagði: „Eftir að ræða þetta í smáatriðum við Adam þá varð ljóst að áætlanir mínir féllu ekki að kröfum Adams þannig að við ákváðum að binda endi á samstarf okkar.“

„Að hafa verið kylfusveinn fyrir fyrsta Ástralann sem sigraði á Masters hefir verið hápunktur ferils míns og er minning, sem mér verður kær um ókomin ár. Ef rétta tækifærið gæfist myndi ég íhuga að vera kylfusveinn í hlutstarfi í framtíðinni.“