Ragnheiður Jónsdóttir | september. 15. 2014 | 10:00

Hyo Joo Kim: „Ég er mjög ánægð… eins og fugl. Mig langar til að fljúga um himininn!“

Það voru fæstir sem könnuðust við Hyo Joo Kim frá Suður-Kóreu fyrir Evian Championship risamót kvennagolfsins, sem lauk í gær í Evian-les-Bains í Frakklandi.

Nú er hún á allra vörum, sem á annað borð fylgjast með kvennagolfinu.

Hún skrifaði sjálfa sig í golfsögubækurnar fyrir lægsta golfhring sem spilaður hefir verið í risamóti kvennagolfsins – óaðfinnanlegan hring upp á 10 undir pari, 61 högg!  En Hyo Joo Kim gerði meira en það; hún er 3. yngsti sigurvegari á risamóti kvenna frá upphafi, aðeins 19 ára og 2 mánaða (en Hyo Joo Kim er fædd Bastilludaginn 14. júlí 1995).

Hyo Joo Kim var reyndar 1 höggi á eftir áströlsku golfdrottningunni Karrie Webb, 39 ára,  fyrir lokaholuna. En hún sneri leiknum við þegar hún setti niður 4 metra fuglapútt á lokaholunni og Webb glutraði endanlega öllu úr höndum sér þegar hún missti par-púttið og þar með af tækifærinu til að knýja fram bráðabana.

Eftir að sigurinn á Evian risamótinu var í höfn vakti Hyo Joo Kim líka athygli með óvenjulegri umsögn, en hún sagði að sigri loknum í gegnum túlk: „Ég er mjög ánægð … eins og fugl. Mig langar til að fljúga um himininn!!!“

Ekki nema von því fyrir utan 350.000 evru sigurlaun (u.þ.b. 52 milljóna íslenskra króna) hlýtur þessi 19 ára stúlka keppnisrétt á bestu kvenmótaröð heims í 1 ár; þ.e. þátttökurétt á bandarísku LPGA mótaröðinni.