Ragnheiður Jónsdóttir | september. 1. 2014 | 22:00

Hvað er heitt og hvað afleitt?

Nú í sumar hefir verið í gangi greinarflokkur hér á Golf 1 sem ber heitið „Hvað er heitt og hvað afleitt?“, sem er í raun bein þýðing og stæling á sambærilegum greinaflokki hjá CBSsports.com, sem heitir þar „What´s hot and what not … on the PGA tour.“ Greinarflokkurinn verður í gangi allt þar til síðustu leikir á Íslandsbankaröðinni hafa verið leiknir fyrstu vikuna í september og hefur síðan aftur göngu sína á næsta sumri 2015, þegar mótaraðir okkar bestu hefja göngu sína, enda greinarröðinni ótrúlega vel tekið.

Á CBS er alltaf getið um 5 atriði (kylfinga, atburði, eitthvað innan golfheimsins), sem þykja hafa skarað fram úr í vikunni áður en greinin birtist og er þ.a.l. heitt og að sama skapi eitthvað sem var afleitt í vikunni þar á undan.

Í hinum íslenska greinaflokki er ekkert loforð gefið um fjölda þess sem er heitt eða afleitt að öðru leyti en því að alltaf er a.m.k. nefnt 1 atriði af hvoru og í mesta lagi 5 eins og á CBS. Haldið er sömu röð og hjá CBS – það sem er nr. 1 er heitast og síðan volgnar niður listann. Alveg eins með það sem er afleitt – það sem er frámunalega afleitt er í 1. sæti og síðan skánar eftir því sem fer niður listann.

Heitt/afleitt grein hefir yfirleitt birtst á mánudögum nú í sumar – þessi birtist öllum að óvörum virkilega á mánudegi!

Karen Guðnadóttir, GS. Mynd: GSÍ

Karen Guðnadóttir, GS. Mynd: GSÍ

Hér fer 14. þ.e. næstsíðasti alíslenski „Hot“ listinn á árinu 2014,  þ.e. fyrir vikuhlutann 25. ágúst – 1. september  (Listinn gildir til mánudagsins 8. september 2014):

1. sæti  Þegar valdir eru þeir sem eru langheitastir sem stendur  í golfinu hérlendis þá er ekki er hægt að gera upp á milli 3 kylfinga: sigurvegaranna á 7. og síðasta móti Eimskipsmótaraðarinnar og Íslandsmeistaranna í holukeppni 2014 Kristjáns Þór Einarssonar, GKJ og Tinnu Jóhannsdóttur, GK og stigameistara GSÍ 2014 Karenar Guðnadóttur, GS og Kristjáns Þórs Einarssonar, GKJ.  Þau eru langheitust og best! Hugsa sér að Krisján Þór Einarsson skuli virkilega hafa sigrað í 3 mótum á Eimskipsmótaröðinni, vera stigameistari GSÍ og skuli ekki vera í karlagolflandsliði Íslands.  Þetta er hreinn og beinn skandall!! Tinna vann í 2. mótum á Eimskipsmótaröðinni, sem er sjóðandi heitt oog Karen var að vinna fyrsta stigameistaratitil sinn í kvennaflokki sem er líka sjóðandi heitt og glæsilegt í senn!!! Frábærir kylfingar öll 3.

2. sæti Gísli Sveinbergsson, GK. Í s.l. viku fór Gísli upp í 185. sætið á heimslista áhugamanna og er sá íslenski kylfingur sem stendur sig best á þeim lista, sem er heitt!!! Eins varð Gísli í 2. sæti á 7. móti Eimskipsmótaraðarinnar, sem er flottur árangur!!! Glæsilegur golfsnillingur á ferð hér, sem kominn er langt þrátt fyrir ungan aldur (varð 17 ára í gær sunnudaginn 31. ágúst) og á eftir að ná enn lengra!!!

3. sæti Þórður Rafn Gissurarson, GR, er heitur. Þórður Rafn komst í gegnum niðurskurð á  Gut Bissenmoor Classic 2014 meistaramótinu sem er hluti af þýsku EPD mótaröðinni. Mótið fór fram í Bad Bramstedt í Þýskalandi og stóð dagana 26.- 28. ágúst 2014. Þórður Rafn lék samtals á 5 yfir pari 218 höggum (72 73 73). Þórður spilaði jafnt og stöðugt golf og var á pari á 16 holum og fékk auk þess 2 skolla. Þórður Rafn hafnaði í 39. sæti.  Eins fékk Þórður Rafn í fyrsta sinn ás í móti en það gerðist fyrsta mótsdag Preis des Hardenberg GolfResort, sem stendur 31. ágúst-2. september 2014 og rétt sleppur því inn á þennan Hot-lista!  Heitt hjá Þórði Rafni að fá ás í móti erlendis!!!

4. sæti Jóhann Sigurðsson, GR fyrir að fá ás á 7. móti Eimskipsmótaraðarinnar á 11. braut Jaðarsins og Benedikt Sveinsson, GK fyrir að fá flesta erni alla keppenda á 7. móti Eimskipsmótaraðarinnar, Goðamótinu – tvo og báða dag eftir dag á sömu braut par-5 3. brautinni á Jaðarsvelli.  Heitir báðir tveir!!!

5. sæti Ingibjörg Halldórsdóttir og Jón Karlsson sigruðu á Opna styrktarmóti Odda fyrir UNICEF  – Heitt að spila golf til styrktar góðu málefni!!!  Minni á Styrktarmót Samhjálpar næsta sunnudag á Urriðavelli, þ.e. sunnudaginn 7. september n.k. Þetta er gott mót – glæsilegir vinningar en best…. málefnið sem verið er að styrkja!!! Allir á Urriðavöll á sunnudag – Takið þátt!!!

Það sem er afleitt er eftirfarandi: (Listinn tekur til vikuhlutans  25. ágúst – 1. september og gildir til mánudagsins 8. september 2014):

1.-5. sæti Að Kristján Þór Einarsson, GKJ, þrefaldur sigurvegari á Eimskipsmótaröðinni, stigameistari GSÍ 2014, Íslandsmeistari í holukeppni 2014, Einvígismeistari á Nesinu skuli ekki vera í karlalandsliði Íslands eða a.m.k einhverjum landsliðsverkefnum. Óskiljanlegt og afleitt!!!  Og svo það sé endurtekið aftur AFLEITT!!!