Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 29. 2014 | 10:00

Ernie Els: „Tiger ætti ekki að ráða sér nýjan þjálfara“

Ernie Els sagði í fyrradag að Tiger Woods ætti að gleyma því að ráða sér nýjan sveifluþjálfara eftir að hafa skilið við  Sean Foley og telur Els að Tiger geti vel einn farið aftur að snúa sér að því að sigra í risamótum.

Els sagði jafnframt að Tiger hefði að sínu áliti aldrei verið sá sami eftir að hann hætti að vinna með Butch Harmon árið 2003 og sér hefði aldrei líkað stefnan sem Tiger hefði tekið undir umsjón Hank Haney og síðan Foley.

Els sagði ennfremur að Tiger væri langt frá því að vera kominn að lokum ferils síns, 38 ára, hann gæti enn endurheimt 1. sæti heimslistans af Rory McIlroy.

„Ég held að það sé  ekki kominn tími til að koma keflinu áfram,“ sagði Els, á símafundi sem haldinn var í aðdraganda Venetian Macau Open, sem fram fer í október n.k.

„Það er vegna þess að ég veit hvar ég er staddur 44 ára og Tiger er ekki einu sinni orðinn 40 ára þannig að það er enn nóg líf í þessum hundi!“