Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 15. 2014 | 09:45

GÍ: Ásgeir Guðmundur með ás!

Í Bæjarins Bestu á Ísafirði segir á eftirfarandi máta um afrek Ásgeirs:

„Hin (sic) bráðefnilegi kylfingur úr GÍ, Ásgeir Guðmundur Gíslason, gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á Tungudalsvelli í gærkvöldi. Draumahöggið átti hann á 7. braut sem er 107 metra par 3 braut með mikilli hækkun og því sést ekki á flötina frá teignum. Félagar hans heyrðu þó þegar að boltinn hitti stöngina en vissu ekki að boltinn hefði endað í holunni. Því varð mikill bægslagangur í þeim félögum er hið sanna kom í ljós og mikil fagnaðarlæti brutust út svo undir tók í Tungudalnum.

Mikil keppni hefur verið í golfi þessa vikuna á milli Ásgeirs og Andra Rúnars Bjarnasonar en þeir eru báðir leikmenn í BÍ/Bolungarvíkur. Ásgeir fékk örn á 5. braut og jafnaði Andri það á 9. braut í fyrrakvöld, Ásgeir fór síðan holu í höggi á 7. braut í gærkvöldi, þannig að það er mikil pressa á Andra að leika þetta eftir vini sínum og félaga.

Ásgeir kvaðst hafa notað 9 járn við draumahöggið og notað um 80% afl til að setja boltann niður. Ekki var laust við að golfélagar Ásgeirs glottu þegar Ásgeir var að lýsa högginu, svo mikil sannfæring fylgdi orðum Ásgeirs þegar hann var að lýsa undirbúningi og sveiflunni sem notuð var við höggið. Það er ljóst að þessi ungi kylfingur er fullur af sjálfstrausti þessa dagana og gaman verður að fylgjast með honum á næstu árum við golfiðkunina.“

Gofl 1 óskar Ásgeiri Guðmundi til hamingju með draumahöggið!