Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 30. 2014 | 10:30

Kylfingurinn Babe Didrikson Zaharias – III. grein

Hér fer þriðja og lokagreinin í röð þriggja golfgreina greinarhöfundar, sem áður hefir birtst, með  góðfúslegu leyfi hennar, á iGolf sunnudaginn 24. janúar 2010, þ.e. fyrir rúmum 4 árum:

Babe og kvenleikinn

Babe braut allar óskrifaðar reglur um kvennleika á sínum tíma, þ.m.t. “reglur” sem giltu um kvenníþróttir. Þó að hún hafi aðeins verið um 1,65 m að hæð, var hún líkamlega sterk og opinská um kraft sinn. Jafnvel þó hún væri íþróttahetja í augum flestra þótti mörgum hún helst til “karlmannleg”. Hún dó 10 árum fyrir seinni bylgju kvenfrelsis í Bandaríkjum, sem breytti bandarísku samfélagi á þann veg að menn áttu auðveldara með að taka kveníþróttamenn, eins og Billie Jean King, í sátt. Í Beaumont í Texas er safn og lystigarður sem nefnd eru í höfuðið á Babe (The Babe Didrikson Zaharias Park and Museum). Sjá myndir

Umsagnir samtíðamanna um Babe

Íþróttafréttamaðurinn Joe Williams sagði eitt sinn eftirfarandi um Babe í “New York World-Telegram”:

“Það væri miklu betra ef hún og hennar líkar væru heima við, tensuðu sig til og biðu eftir að síminn hringdi.”

Umsögn Joe Willams var dæmigerð um afstöðu margra til þeirra kvenna, sem ekki létu ramma sig inn í viðtekin viðhorf til kvennleika á fyrri helmingi 20. aldarinnar.

Eftir sem áður valdi Associated Press hana “Kvenfrjálsíþróttamann ársins” í alls 6 skipti vegna afreka hennar í frjálsum og golfi og árið 1950 hlaut hún flest atkvæði í kjöri um “Mesta kveníþróttamann á fyrri helming 20. aldar.”

Fyrir utan þau áhrif, sem hún hafði á konur og stúlkur síns tíma, heillaði hún einnig suma íþróttafréttamenn (hér: íþróttafréttamanninn Grantland Rice, sem vitnað er til á ESPN):

“Hún er ótrúleg þar til þú sérð hana með eigin augum… Þá loks skilurðu að þú er að horfa á gallalausa samhæfingu vöðva, fullkomnustu samhæfingu efnis og anda, sem heimurinn hefur nokkru sinni séð.”

Babe Didrikson Zaharias var tekin í frægðarhöll kvenkylfinga, árið 1951.

Árið 1957 hlaut hún Bob Jones viðurkenninguna, sem er æðsta viðurkenning sem USGA (United States Golf Association) veitir í golfi. Hún var ein meðal 6 fyrstu kvenna sem var tekin í frægðarhöll LPGA (Ladies Professional Golf Association) við opnun frægðarhallarinnar, 1977.

Áhrif Babe í dag

Associated Press fylgdi yfirlýsingu sinni frá 1950 eftir með því að kjósa hana um 50 árum síðar “Kveníþróttamann 20. aldarinnar”, árið 1999.

Hjá Sports Illustrated Magazine, árið 2000  lenti hún í 2. sæti á lista yfir “Mestu kvenfrjálsíþróttamenn allra tíma”, var á eftir Jackie Joyner-Kersee.

Babe er einnig að finna í “heimsfrægðarhöll kylfinga” (World Golf Hall of Fame).

Babe er efst allra kvenna á stigalista ESPN yfir 50 bestu frjálsíþróttamenn 20. aldarinnar, en hún er í 10. sæti á þeim lista.

Árið 2000 var hún talin nr. 17 á lista yfir bestu kylfinga og útnefnd næstbesti kvenkylfingur allra tíma af Golf Digest, aðeins Mickey Wright þótti henni fremri.

Babe braut viðteknar hefðir um hvernig kvenkylfingur ætti að vera. Fyrirmynd kvenkyflinga á 3. og 4. áratug síðustu aldar var Joyce Wethered, grannvaxin, liðug ensk kona með kennslubókar-sveiflu, sem gáfu af sér elegant högg, en ekki sérlega löng högg. Babe þróaði íþróttamannslegri sveiflu, sem minnti á sveiflu Lee Trevino og hún var svo sterk af teig að samríkjamaður hennar frá Texas hafði á orði að hann vissi einungis um 8 karlmenn, sem ættu sterkari teighögg en hún.

Babe Zaharias Park

Babe Zaharias Park