Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 26. 2012 | 21:00

9006 keppa í úrtökumóti um þátttökurétt á Opna bandaríska risamótinu 2012

Það eru alls 9,006 kylfingar sem hafa sótt um að taka þátt í úrtökumóti fyrir Opna bandaríska sem fram fer í  Olympic Club í San Francisco, dagana 14.-17.júní n.k.

Alls bárust umsóknir frá öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna og samtals 71 þjóðríki.

Alls voru  677 umsóknir sem bárust síðasta daginn, þ.m.t. 124 sem bárust síðasta klukkutímann.  Alls voru 9006 umsóknir og vantaði aðeins 80 upp á að nýtt met hefði verið slegið.

Jason May, 38 ára áhugamaður, frá Sterling Heights í Michigan, var fyrstur til að skila inn umsókn 5. mars s.l. og atvinnumaðurinn Brad Doster, frá Winter Park í Flórída, sá síðasti, en hann skilaði inn umsókn 29 sekúndum áður en umsóknarfrestur rann út.

Aðeins 53 kylfingar fá sjálfkrafa þátttökurétt á mótinu sem Rory McIlroy vann á síðasta ári á Congressional.

Meðal úrtökumóta er 36 holu keppnin á Walton Heath, sem fer fram 28. maí n.k.  Í gegnum það úrtökumót komst m.a. Michael Campbell frá Nýja-Sjálandi og vann síðan Opna bandaríska 2005.

Fjöldi þeirra sem hljóta þátttökurétt eykst þegar fyrir liggur 21. maí hverjir 60 efstu á heimslistanum eru og 11. júní þegar sigurvegarar the Players Championship á Sawgrass 13. maí og  BMW PGA Championship í  Wentworth 27. maí hljóta líka þátttökurétt.

Meðal kylfinga frá Evrópu sem eiga þátttökurétt í mótinu eru Darren Clarke, Luke Donald, Sergio Garcia, Peter Hanson, Pádraig Harrington, Fredrik Jacobson, Martin Kaymer, Graeme McDowell, Rory McIlroy, Justin Rose og Lee Westwood.

Heimild: Sky Sports