Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 30. 2014 | 12:00

650 kylfingar keppa í 7 golfmótum 1. maí 2014!

Alls fara 7 golfmót fram á landinu á morgun, á frídegi verkamanna og munu því meira en 650 kylfingar keppa í mótum! Búast má við að allt að því jafnmargir mun spila sér til skemmtunar, en ýmsir golfvellir opna eða eru að fara að opna.

Mótin 1. maí 2014  eru eftirfarandi:

GHR: Á Hellu fer fram fjölmennasta mótið á morgun en skráðir til leiks eru 229 kylfingar þegar þetta er skrifað í hádeginu 30. apríl, þar af 17 kvenkylfingar.  1. maí mót GHR og Grillbúðarinnar markar upphafið á golfsumrinu hjá mörgum og eru fyrstu rástímar á morgun kl. 6:00 og enn laust í nokkra.

GKJ: Opna 1. maí mót GKJ nýtur vaxandi vinsælda og er þetta næstfjölmennasta mótið en 200 kylfingar eru skráðir í mótið, þar af 29 kvenkylfingar. Tveir rástímar eru enn lausir þ.e. kl. 15:50 og 16:00.

GS: 50 ára afmælismótaröð GS heldur sínu striki og eru 111 kylfingar skráðir til leiks á morgun, þar af 13 kvenkylfingar.  7:50 og 12:50 rástímarnir eru enn lausir og hægt að skjóta einstaka kylfingi inn á ýmsum tímum.

GSG: Í Sandgerði fer fram 1. maí fiskimótið og eru 52 kylfingar skráðir til leiks þar af 8 kvenkylfingar. Nóg er af lausum rástímum í mótið!

GBR:  Opna 1. maí mót GBR fer fram á Brautarholtsvelli á Kjalarnesi.  Þar eru sem stendur 50 kylfingar skráðir til keppni, þar af 2 kvenkylfingar. Keppnisfyrirkomulag er 18 holu punktakeppni.

GHH: Hjá golfklúbbnum Höfn í Hornafirði fer fram Vanur/Óvanur mót og eru 10 kylfingar skráðir til leiks. Ef áhugi er að bregða sér til Hafnar í Hornafirði má eflaust koma kylfingum í mótið!

GÍ: Á dagskrá er að halda Opnunarmótið 1. maí á Tungudalsvelli – en ekkert segir hversu margir eru skráðir til keppni.