Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 14. 2013 | 08:00

PGA gerir rétt í því að flýta sér hægt í að refsa Vijay Singh fyrir að nota hjartarhornssprey

Þetta er hárrétti tíminn fyrir PGA Tour að taka sér góðan og langan tíma til að gaumgæfa lyfjamál frægðarhallarkylfingsins Vijay Singh.

 Vijay viðurkenndi í SI (skammst. fyrir Sports Illustrated) að hafa nota svokallað hjartarhornssprey (ens. deer antler spray) og sagði að hann notaði efnið daglega á tveggja klst fresti og eins m.a. að sig hlakkaði til hvaða áhrif efnið hefði á líkama sinn.  Svolítið furðuleg hegðun manns, sem er að nota ólögleg efni. að auglýsa það svona í einu mestlesna íþróttatímariti vestanhafs.  Staðreyndin: Hann hafði ekki hugmynd um að efnið væri ólöglegt! … enda hafa margir þekktir kylfingar komið fram og sagst hafa notað efnið. Efnið í hjartarhornsspreyinu var líka þar til fyrir skömmu leyfilegt og ekki bannað, en það eitt sér afsakar Vijay ekki að hafa notað það. Hann sjálfur gerir sér grein fyrir að málið muni hafa afleiðingar fyrir hann spurningin er bara hverjar?

PGA Tour getur ákveðið að hann verði settur í leikbann í a.m.k. 6 mánuði á mótaröðum PGA. En það er meira en að segja það að setja frægðarhallarkylfing í leikbann, en Vijay hlaut inngöngu í frægðarhöll kylfinga 2005. Hann hefir átt frábæran feril m.a. sigrað á Masters 2000 og PGA Championship 1998 og 2004 og er  þ.a.l. þrefaldur risamótsmeistari.

Ljóst er að lyfjamálið hangir eins og svart ský yfir frábærum og framúrskarandi ferli, nokkuð sem Vijay á eftir að þurfa að lifa með alla ævi og langt fram yfir það, því hann hefir sett ljótan blett á arfleifð eina góða kylfingsins frá Fidji-eyjum. Sumum  finnst það  næg refsing.

En nei, það nægir sumu fólki ekki.  Sumir eru æstir að sjá goðsagnir falla af stalli og það þarf í kjölfarið sjá þær í svaðinu, barið rækilega á þeim og  öruggt verður að vera að þær hljóti ekki forréttindameðferð. Einmitt af því að ferillinn er svo flottur finnst slíku fólki að Vijay hafi átt og eigi að ganga fram með góðu fordæmi og ef hann gerir það ekki eiga afleiðingarnar að verða þyngri fyrir hann eða a.m.k. þær sömu og hjá öðrum. Noblesse oblige. Í því sambandi er vert að huga að því að þeir allra bestu eiga sér fjölda öfundsmanna, sem ekki þola velgengni þeirra og nægir í því sambandi að nefna að jafnfrábær kylfingur og Tiger er jafnframt 3. óvinsælasti íþróttamaðurinn skv. nýlegri skoðunarkönnun. Að draga spón úr aski slíkra manna er sumu fólki fjandafögnuður.

Til þess að gæta alls jafnréttis þarf að fara eins með mál þeirra sem eins er komið fyrir.  Það eru engin fordæmi fyrir máli manns á borð við Vijay. Frá því að bannlisti lyfja var komið á koppinn á PGA Tour, einkum vegna þrýstings frá Olympíunefndinni, þar sem golf er nú ein keppnisgrein á næstu Ólympíuleikunum hefir aðeins einn kylfingur þurft að sæta viðurlögum vegna lyfjamisnotkunar en það er lítt þekkti kylfingurinn Doug Barron sem dæmdur var í 1 árs leikbann, en jafnvel því banni var lyft af honum. Sjá m.a. grein um mál Barron með því að SMELLA HÉR: 

Mál Vijay og Barron eru ekki sambærileg. Barron er ekki þrefaldur risamótsmeistari og frægðarhallarkylfingur. Það er enginn stórkostlegur ferill sem skemmist eða arfleifð sem bíður hnekki.

Eitt af mörgu sem skilur málin að er að ásetningur Vijay til til að brjóta gegn banni PGA Tour, með því að nota efnin sem eru í hjartarhornsspreyinu, virðist enginn vera. Enginn hefði vitað neitt um að Vijay notaði hjartarhornssprey hefði hann sjálfur ekki verið að tjá sig um það. Hann var ekkert að leyna því að hann notaði nota efnið til þess að halda sér ungum. Barron var tekinn af handahófi í blóðprufu og þá kom lyfjamisnotkun hans í ljós.

Framkvæmdastjóri R&A veltir vöngum yfir hversu útbreidd lyfjamisnotkun meðal kylfinga er og virðist telja að hún sé útbreiddari en vitað sé.  Sjá um það m.a. grein með því að SMELLA HÉR: 

Vijay hefir lýst því yfir að hann muni að öllu leyti vera samstarfsfús við PGA Tour og hefir m.a. rætt mál sín við framkvæmdarstjóra PGA Tour, Tim Finchem.

Forsvarsmenn PGA Tour virðast ekki hreyfa neinum andmælum við að hann spili á mótum mótaraðarinnar. Hann var með á Pebble Beach og verður með á Riviera.

Vijay verður 50 ára eftir nákvæmlega 8 daga – rúma viku.  Á PGA Tour að flýta sér að afgreiða mál manns – sem eftir rúma viku spilar væntanlega á Champions Tour en ekki PGA Tour?

Eitt er víst að Vijay á ekki skilið að vera skilinn eftir í neinni óvissu – og hann virðist ekki vera það – þó við hin vitum ekki hvað ákveðið hefir verið í máli hans af PGA Tour.  Hann á ekki skilið að sagðir séu um hann billegir hreindýrabrandarar, en það er nokkuð sem enginn hefir stjórn á og hluti af því sem þessi frábæri kylfingur þarf að þola þessa daganna.

Af öllu framangreindu má ljóst vera að jafnvel þó ekkert yrði ákveðið að gera í máli Vijay, þá hefir hann að mati svo margra þurft að líða nóg fyrir það að vilja gera allt til þess að halda sér samkeppnisfærum og ungum til að geta keppt í golfi við sér stundum þrefalt yngri menn.

 A.m.k. ætti  PGA Tour ekki að rasa um ráð fram og flana að því að taka ákvörðun að óígrunduðu máli. Golf er jú íþrótt sem byggist svo mikið á heiðarleika kylfingsins sjálfs og spurning hvort Vijah Singh hafi ekki einmitt verið það, þ.e. heiðarlegur?