Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 14. 2012 | 20:30

Skíðakappi sprengdi næstum augað úr konu sinni í golfleik

Þeir sem fjárfest hafa í Golf á Íslandi, 800 bls. tveggja binda glæsilegu ritverki þeirra Steinars J. Lúðvíkssonar og Gullveigar Sæmundsdóttur, sem út kom í tilefni 70 ára afmælis GSÍ hafa lesið í 1. kafla upprifjun á grein frá árinu 1931, sem birtist í Alþýðublaðinu:

Þar sagði frá fegurstu stúlkunni í bænum Methuen í Bandaríkjunum, sem hét J. Evart Hill og átti mikinn fjölda af aðdáendum og biðlum. Dag einn fór hún í golfleik með einum af áköfustu biðlum sínum.  

Segir svo í grein Alþýðublaðsins frá því fyrir 80 árum: „Allt í einu sló hann kúluna í 20 m fjarlægð frá stúlkunni, en kúlan settist í annað auga hennar og sprengdi það út.“

Þetta þótti mörgum ljótt að heyra  (hér á Íslandi) og sanna að golfíþróttin væri ekki hættulaus fremur en aðrar íþróttagreinar.“

———————————-

Og sagan endurtekur sig 81 ári síðar:

Bode Miller, bandarískur gullmedalíuhafi á Ólympíuleikunum 2010 í Vancouver á skíðum, var í fyrradag í golfi með konu sinni, Morgan, sem er atvinnumaður í blaki.

Hann sló boltanum beint í andlit konu sinnar þannig að sauma þurfti 50 spor. Hér að neðan má sjá afleiðingu slysahöggsins:

Morgan Bode

Verður ekki betur séð en að tilraun hafi verið gerð til að „sprengja augað út“, þó óviljandi væri.

Morgan tvítaði eftirfarandi um atburðinn:„Finnst ég ekkert of „heit“. Fékk golfboltann í beinlínu drævi beint í andlitið á mér í dag frá elskulegum eiginmanni mínum. Ég elska hann enn, en á-i!“

Í gær leið Morgan aðeins betur, var farin að fá tilfinningu í andlitið, en sá ekkert með vinstra auganu.

Já, golfíþróttin er ekki hættulaus fremur en aðrar íþróttir – og einn golffréttamiðillinn taldi að myndin að ofan yrði varla efni í jólakort hjá þeim hjónakornum!!!