Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 10. 2014 | 10:10

5 sæmdir gullmerki í glæsilegu 50 ára afmælishófi GS

Fimm núverandi og fyrrverandi félagar úr Golfklúbbi Suðurnesja voru sæmdir gullmerki GSÍ í dag á afmælishófi GS fyrir framlag þeirra til golfíþróttarinnar.

Það var Haukur Örn Birgisson, formaður Golfsambands Íslands, sem sæmdi félagana við þetta hátíðlega tilefni. Eftirtaldir hlutu þessi heiðursverðlaun:

Gunnar Þórarinsson (fæddur árið 1949)
Formaður Golfklúbbs Suðurnesja á árunum 2003–2008.

Gunnar tók við formennsku árið 2003 en þá var fjárhagstaða klúbbsins afar slæm. Í formannstíð Gunnars tókst Golfklúbbnum að grynnka verulega á skuldabagga félagsins.


Sigurður Garðarsson (fæddur árið 1961)
Formaður Golfklúbbs Suðurnesja á árunum 2009–2013.

Sigurður tók við formennsku árið 2009, skömmu eftir bankahrunið fræga. Erfiðir tímar biðu klúbbsins, en með þrautsegju og útsjónarsemi Sigurðar og meðstjórnenda hans náði klúbburinn að fjárfesta og skila afgangi öll þau ár sem var formaður.


Karen Sævarsdóttir (fædd árið 1973)
Áttfaldur Íslandsmeistari kvenna í golfi á árunum 1989–1996, en þetta afrek hennar verður seint slegið.

Karen Sævarsdóttir er sigursælasti kvenkylfingur íslenskrar golfsögu. Auk þess að vinna Íslandsmeistaratitilinn átta ár í röð hefur hún unnið alla þá titla sem hafa verið í boði hér á landi.


Sigurður Albertsson (fæddur árið 1934)
Tífaldur Íslandsmeistari eldri kylfinga og hefur leikið fyrir landslið eldri kylfinga í fjölmörg ár.

Sigurður Albertsson hefur unnið flesta íslandsmeistaratiltla í flokki eldri kylfinga. Sjö sinnum hefur hann verið Íslandsmeistari eldri kylfinga í flokki 55 ára og eldri, einnig hefur hann orðið þrisvar sinnum Íslandsmeistari eldri kylfinga í flokki 70 ára og eldri. Sigurður Albertsson verður áttræður í ár, en hann er einn að virkustu félögum GS.


Einar Bergmann Jónsson (fæddur árið 1947)
Vallarstjóri Golfklúbbs Suðurnesja í yfir 20 ár.

Einar hefur stýrt uppbyggingu Hólmsvallar undanfarin 20 ár og má þakka honum að stórum hluta gæði og falleg ásýnd Leirunnar í dag. Einar hóf störf hjá GS árið 1993 og starfar hér enn.