Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 25. 2012 | 18:00

Íslandsmótið í höggleik – Axel Bóasson: „Ég ætla að spila mitt golf“

Íslandsmótið í höggleik hefst á morgun á Strandarvelli hjá GHR, sem fagnar 60 ára afmæli á þessu ári. Allir bestu kylfingar landsins taka þátt, þ.á.m. Axel Bóasson, Golfklúbbnum Keili, sem á titil að verja.

Axel Bóasson, GK ásamt Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur, GR – Íslandsmeistarar í höggleik 2011. Mynd: gsimyndir.net

Golf 1 tók stutt viðtal við Axel:

Golf 1: Hvernig leggst Íslandsmótið í höggleik í þig?

Axel: Það leggst bara mjög vel mig. Ég hlakka til að takast á við mótið.

Golf 1: Hvernig er frábrugðið að keppa hér á Íslandi á Íslandsmóti og á mótum í bandaríska háskólagolfinu – eða er einhver munur?

Axel: Jú, það er munur. Vellirnir úti eru í öðrum klassa, en þar spilar veðrið inn í. Hitinn er meiri úti  og aðstæður töluvert betri.

Golf 1: Hefir þú spilað Strandarvöll nú nýverið?

Axel:  Já ég tók þátt í Pro-Am mótinu og spilaði 3 hringi. Það er auk þess mikil undirbúningsvinna að baki.

Golf 1: Ætlar þú að verja  Íslandsmeistaratitilinn í höggleik?

Axel: Maður reynir það sem maður getur. Ég ætla að spila mitt golf.

Golf 1: Hvað þarf til, til þess að sigra á Íslandsmóti, að þínu mati?

Axel: Það þarf nákvæmi, að hitta brautirnar og hitta greenin og pútta vel . Það verður að gera allt mjög vel.

Golf 1: Finnst þér að bæta mætti úr einhverjum atriðum á Íslandsmótum í höggleik hér á landi og ef svo er hverjum?

Axel:   Íslenska mótaröðin er að standa sig mjög vel. Landsmótin er alltaf flott, alger snilld. Ég er spenntur að sjá hvernig þetta verður á Hellu.  Þetta er mjög flott.