Ragnheiður Jónsdóttir | október. 21. 2013 | 09:50

4 ára fangelsi fyrir að valda dauða efnilegs kylfings

Amanda Catherine Lowery, 42 ára var í dag í High Court í Hamilton, Nýja-Sjálandi dæmd til 4 ára og 2 mánaða fangelsis fyrir  að valda dauða efnilega kylfingsins Shaynu Kumitau, 18 ára, af völdum ölvunaraksturs.

Shayna Kumitau

Shayna Kumitau

Tildrög málsins voru þau að Lowery keyrði á Valentínusardeginum, 14. febrúar í ár, drukkin á bíl 4 ungmenna, Shaynu Kumitau, 18 ára; Abby Benge, 19 ára;  Rebekku Marsh, 19 ára og Samuel Tait, 22 ára, á State Highway 23 í Whatawhata, Nýja-Sjálandi.  Lowery var með 1,9 prómill alkóhóls í blóði, en leyfileg mörk eru 0,8 á Nýja-Sjálandi.

Hávaðinn af samstuði bílanna var svo mikill að táningur í nærliggjandi húsi sem var með heyrnartól að hlusta á háværa dægurmúsík og var þess utan að dunda sér í tölvunni sinni, heyrði áreksturinn greinilega.

Kumitau lést af völdum áverka sinna 5 dögum síðar, en hún hafði verið flutt í Auckland Hospital til þess m.a. að gangast undir lifrarígræðslu.  Abby Benge, sem átti Suzuki Swift bílinn, sem ungmennin voru í lá í margar vikur í dái og var beinbrotin á 12 stöðum m.a. á  hné, ökkla, hæl og vinstri og hægri fótlegg, kjálka og viðbein, auk þess sem hún hlaut alvarlega höfuðáverka. Marsh og Tait voru einnig beinbrotin og skorin af glerbrotum úr bílrúðu sem brotnaði við áreksturinn. Þau þrjú voru viðstödd uppkvaðningu dóms yfir Lowery í dag.

Lowery hafði verið að drekka slysadaginn. Hún keyrði á öfugum vegarhelmingi og lenti á fullri ferð beint framan á bíl ungmennanna, sem höfðu komið saman til þess að baka Valentínusarkökur fyrr um daginn.  Lowery játaði skýlaust brot sitt.

Þess mætti  geta að mörk leyfilegs alkóhólmagns í blóði á Íslandi eru 0,5 prómill.

Svona sorglegir atburðir eins og Valentínusar-slysið á Nýja-Sjálandi, þar sem hinn stórefnilegi kylfingur Shayna Kumitau lést, en mikils var  búist við af henni á nýsjálenska golfsviðinu – hún þótti m.a. næstbesti kvenkylfingur Nýja-Sjálands á eftir Lydiu Ko – ættu að minna okkur á að keyra aldrei ölvuð – eða … eftir einn ei aki neinn.