Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 30. 2012 | 18:00

Saga Golfklúbbs Hellu í 60 ár – GHR í 60 ár (2. hluti af 12) – tekið saman af Ólafi Stolzenwald

Hér verður fram haldið með samantekt Ólafs Stolzenwald á Sögu Golfklúbbs Hellu:

Gamla skólahúsið, þar sem nú er Golfskálinn á Hellu.
Mynd: Í eigu Ólafs Stolzenwald

Strönd á Rangárvöllum

Um 1972 fékkst síðan land við bæinn Strönd sem áður var skólahús byggt árið 1933, en var í ábúð á þessum árum.  Þar byrjar í raun fyrri endurreisn klúbbsins og byggður var níu holu völlur á túnum bæjarins sem var grófteiknaður af Rúdólf Stolzenwald.  Keyptar voru vélar fyrir flatarslátt fljótlega ásamt mosatætarasláttuvél og menn byrjuðu strax að starfa og koma vellinum í spilahæft form. En það gekk ekki þrautalaust með svo fáa félaga.  Margir komu að þessu verki bæði frá Hellu, og nærsveitum og þar á meðal var Einar Kristinsson sem varð síðan formaður frá 1970-1977. Á þessu tímabili var ekki starfrækt eiginleg stjórn eða nefndarstarf og nánast ekkert mótahald fyrr en um 1977. Fyrsta meistaramót klúbbsins var haldið 1978 ef heimildir eru réttar.  Mótið var 36 holu mót í fyrstu og man undirritaður eftir því að Þorvaldur Ásgeirsson Íslandsmeistari til margra ára og sonur eins af stofnendum GHR, spilaði sem gestur í mótinu.

Hér má nefna nokkra sem komu að starfinu og golfleik : Ægir Þorgilsson,  Árni Hannesson,  Árni Sigurjónsson, Hálfdán Guðmundsson, Knútur Scheving,  Gunnar Sigurjónsson, Gunnar Hubner,  Svavar Bjarnhéðinsson, Jónas Hermannsson, Helgi Hermannsson,  Gunnar Hjartarson, bræðurnir Jón og Bogi Thorarensen og fleiri.   Félagar hafa verið frá 10-15 á þessu tímabili og spilað var á vellinum í tæpan áratug.

Sveiflað á gamla vellinum á Gaddstaðaflötum.
Mynd: Í eigu Ólafs Stolzenwald

Hin eiginlega endurreisn og drifkraftur Hermanns Magnússonar

Árið 1977 er Hermann Magnússon kjörinn formaður og hefst þá tímabil í sögu klúbbsins sem voru okkar stærstu spor og í Hermanni bjó mikill drifkraftur sem dreif félagana áfram í sjálfboðavinnu sem lögðu grunninn að því hvernig okkar góða aðstaða er í dag.   Mynduð var stjórn 1977 og  nefndir og hið eiginlega félagssarf hófst.   Þarna var kominn meiri grundvöllur fyrir því að gera aðstöðuna betri og fleiri hendur unnu það verk og völlurinn varð vel spilahæfur.  Félagar héldu sem dæmi eitt réttarball til að fjármagna sláttuvélakaup og sú vél er enn nothæf.

Á þessum tíma fjölgaði talsvert af félögum í golfklúbbnum og 23 skráðu sig í klúbbinn þetta ár. Golfklúbburinn gekk formlega í GSÍ um þetta leyti.  Klúbburinn fékk lánaðan vegavinnuskúr í einhvern tíma til að hafa lágmarks aðstöðu í fyrstu. Einnig var notast við tjöld fyrir veitingaaðstöðu.

Það gekk ekki alltaf áfallalaust samstarf ábúenda á Strönd og golfklúbbins. Hestar, rollur og hundur bóndans völsuðu um golfvöllinn og dæmi voru um að hundur bóndans tók kúlur kylfinga og var mönnum farið að gruna ýmislegt í þeim efnum.  Margar ferðir voru farnar á skrifstofu sveitarstjóra og kvartað yfir ágangi bóndans á strönd og um 1980 var gert samkomulag milli Rangárvallhrepps, sem var landeigandi, og hins vegar golfklúbbins þar að lútandi að klúbburinn léti eftir land vestan síkis að mestu og missti þar fjórar golfbrautir af vellinum en fengi svæði austan síkis til vallargerðar.

Á þessum tíma var formanninum Hermanni Magnússyni mikið í mun að kynna völlinn og aðstöðuna og hélt sem dæmi boðsmót sem síðar varð Strandarmótið – Öldungamót og var lokahóf í fyrstu mótunum haldið í Verkalýðshúsinu á Hellu og tóku eiginkonur félaga GHR þátt í því að smyrja ofan í mannskapinn.   Strandarmótið sem haldið var árið 1981 var vel mannað enda mættu 80 kylfingar, 55 ára og eldri í mótið.

Hermann Magnússon. Í höfuðuð á honum heitir bikarinn,
sem spilað er um í karlaflokki ár hvert hjá GHR.
Mynd: Í eigu Ólafs Stolzenwald

Stóru skrefin tekin til framtíðar

Um þetta leyti var samþykkt á félagsfundi að kaupa hús fyrir golfskála af Landsvirkjun og var hann settur saman og reistur um 1980, tekin formlega í notkun 1. maí 1982 og vígður í september sama ár.  Golfskálinn gjörbreytti öllu félagsstarfi og aðstöðu við mótahald.   GHR fékk styrk úr Íþróttasjóði Ríkisins til kaupanna. Staðsetning skálans var nálægt Strandarsíki og var átjánda flöt vallarins við skálann sem er áttunda flöt núverandi vallar.   Vatnsmál voru í ólestri og ekkert rafmagn var í skálanum fyrstu árin.   Mikil sjálfboðavinna var við uppbyggingu skálans og voru Guðmundur,  Brynjólfur og Stefán Jónssynir fremstir í flokki þar ásamt fleirum og árið 1990 var núverandi vélageymsla reist fyrir tæki og tól klúbbsins. Viðbygging var síðan reist við skálann fyrir landsmótið 1995.

Frá 1980 gekk klúbburinn í gegnum erfitt tímabil rekstralega og tók það um áratug að koma því í viðunandi horf.  Félagar voru 46 talsins á þessum tímapunkti.  Um 65 félagar voru í GHR á þessum tímamótum og um þriðjungur ungviði.

Sjá má samantekt Ólafs Stolzenwald í heild með því að SMELLA HÉR: