Ragnheiður Jónsdóttir | október. 22. 2012 | 18:30

18 atriði sem eru jákvæð við golf (2. hluti af 6)

Hér verður fram haldið með atriðin 18 sem greinarhöfundurinn David Owen telur að séu jákvæð við golfið.  Listi hans hefir birtst á Golf Digest:

4. Félagsskapurinn.  Það er jafngaman að spila við þá sem maður þekkir og þá sem maður þekkir ekki neitt. Það er svo mikill tími sem fer í einn golfleik að mikill tími gefst til að tala saman… nokkuð sem ekki er t.a.m. hægt í handbolta, tennisleik eða öðrum íþróttum meðan á leik stendur. David segist oft hafa spilað við ókunnuga og þá kynnst jafnfjölbreytilegum hóp og franska fasteignasalanum, sem átti sumarbústað í Marokkó (vegna þess að þar eru að rísa æðislegir golfvellir); gæjann frá Kólombíu sem átti souvlaki stand í Manhattan; manninn sem starfaði fyrir efri deild Bandaríkjaþings í Iran-Contra yfirheyrslunum; kóreanska hárkollugerðarmanninn; gæjana 3 sem voru að skrópa úr færibandavinnu sinni fyrir Boing; franska Líbanann, sem flutti óslípaða demanta frá Afríku til Dubai; bjórsölumanninn og atvinnulausa húsasmiðinn sem leit út eins og George Carlin og gaf honum það snilldarráð að„sveifla léttilega eins fast og hann gæti.“ Í hvaða annarri íþróttagrein kynnist maður jafnfjölbreytilegum hópi manna eða spilar með þeim eitt andartak lífs síns? Fólk sem aldrei hefði undir öðrum kringumstæðum kynnst, kynnist á golfvöllum alls staðar, um allan heim.

5. Einveran. Golf er frábært vegna þess að maður þarf engan félagsskap til þess að njóta leiksins…. það er alveg eins hægt að spila ein/n. Að tía upp þegar sólin er að koma upp eldsnemma á vormorgni er æðislegt til að hreinsa hugann fyrir það sem framundann er þann daginn. Níu holur á kvöldin, ein/n þegar maður hefir allan völlinn fyrir sig er frábær aðferð til þess að losa sig við stress dagsins og vonbrigði. Jafnvel kortér á æfingasvæðinu getur breytt viðhorfi manna til þess sem hvílir á þeim – oftast til hins betra.   Það er hægt að takast á við allt sem að höndum ber aftur. Jafnvel innan um hóp fólks á mótum er hver einn, að spila fyrir sjálfan sig. Golfið er eins og Herbert Warren Wind orðaði það „barátta mannsins við sinn innri mann.“

Einvera/félagsskapur eru andstæður en golf býður upp á hvorutveggja: þetta er næstum því eins og þegar Fílamaðurinn var spurður að því hvað honum þætti best og verst. Svarið var það sama: „Sólin sem skín á andlitið á mér.“   Golfið er eins og sólin … til staðar og hlýjar þeim sem vill í hvaða formi sem það tekur á sig; einveru eða félagsskap.

6.  Golfið veitir fullorðnum tækifæri á að leika sér.  Þegar fólk fullorðnast hætta margir að leika sér, jafnvel leikir fullorðinna eru oft ekkert annað en dulbúin vinna. Golfið veitir frábært tækifæri til þess að ímynda sér hluti, sem e.t.v. leyfast ekki á öðrum vettvangi. Ímynda sér að maður sé að spila á PGA eða LPGA en ekki meistaramóti klúbbsins síns. Ímynda sér að maður sé góður og að ákveðin högg muni takast – vera barnalega bjartsýnn, sem oft er virkilega besta vegarnestið í þessum margslungna leik sem golfið er.  Að leyfa sér að látast án þess að nokkur fái nokkurn tímann að vita af því er þegar verst lætur ekkert annað en frábær afslöppun, …. þegar best lætur ýtir það undir bjartsýni og þ.a.l. sjálfsöryggi, sem nýtist innan sem utan vallar.