Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 1. 2013 | 09:45

16 mót – 950 spila golf í dag!

Í dag er boðið upp á 16 golfmót víðs vegar um landið.

Á Þverárvelli að Hellishólum fer fram Áskorendamótaröð Íslandsbanka og eru 65 krakkar og unglingar skráðir til leiks og á Strandarveli á Hellu er leikið á fyrri degi Unglingamótaraðar Íslandsbanka. Þar eru keppendur 131.

Hið vinsæla kvennamót Soroptimista er haldið í Oddinum, hjá GO og eru hvorki fleiri né færri en 174 konur skráðar til leiks enda eitt alvinsælasta kvennamótið, sem hefir verið að festa sig í sessi undanfarin ár.

Opna PING öldungamótið er haldið á Hvaleyrinni í Hafnarfirði og eru þátttakendur 154.

Tvö innanfélagsmót eru haldin þ.e. Texas Scramble hjá NK (16 lið þ.e. 32 kylfingar) og síðan er Hjóna- og paramót hjá Golfklúbbi Álftaess (GÁ) og eru 10 lið þ.e. 20 kylfingar.

Texas Scramble mót er á Leirdalsvelli á vegum Fótbolti.net og eru 73 lið skráð til keppni eða 146 keppendur.

Hjá GOS fer fram mótið Opna Fjöruborðið og eru 42 skráðir í mótið. Í Golfklúbbi Öndverðarnes er Opna Mapei Húsasmiðjumótið haldið og eru þátttakendur 52.

Á Hamarsvelli hjá GB ætla 14 að keppa í Vanur/Óvanur og á Grundarfirði hjá GVG er lokað mót (ekkert gefið upp um fjölda þátttakenda).  Hjá GL á Akranesi fer Opna Samhentir/Vörumerking fram og eru 46 manns skráðir til keppni – jafnframt fer fram lokað mót Samskipa og eru keppendur 7.

Fyrir norðan er Húsasmiðjumótið á dagskrá hjá GHD á Arnarholtsvelli á Dalvík (ekkert gefið upp um keppendur) en Opnunarmót GSS á  Sauðárkróki, sem fara átti fram í dag hefir verið aflýst svo og Upphitunarmóti sem var á dagskrá hjá GKS, á Siglufirði.

Í tengslum við Sjómannadaginn eru svo tvö stór mót sem fara fram í dag Sjóarinn síkáti í Grindavík (þátttakendur 97) og Sjómannadagsmót GN og Glófaxa á Neskaupsstað (þátttakendur 62). Auðbjargarmótinu, sjómannadagsmóti á Seyðisfirði hefir verið frestað til 17. júní.

Það er því gríðarlega mikið um að vera í golfíþróttinni á landinu í dag meira en 950 kylfingar skráðir í mót !