Ólöf María Einarsdóttir, GHD fór tvisvar sinnum holu í höggi 2013. Glæsilegt hjá þessari 14 ára stelpu! Mynd: Örnólfur Aðalsteinsson
Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 19. 2014 | 09:00

145 kylfingar með ás 2013

Árið 2013 var mörgum kylfingum farsælt, þrátt fyrir lélegt golfsumar.

Aldrei áður hafa eins margir, 145 kylfingar, náð draumahögginu. Fyrra metið var árið 2010 en þá voru 143 sem náðu draumahögginu.

Að uppfylltum nokkrum einföldum formsatriðum þá verða allir kylfingar sem fara holu í höggi sjálfkrafa meðlimir í Einherjaklúbbnum. Klúbburinn var stofnaður af tíu þáverandi afreksmönnum á þessu sviði árið 1967 og hefur síðan haldið skrá yfir alla þá sem hafa farið holu í höggi.

Án þess að gera lítið úr afreki flestra nýrra félaga í klúbbnum þá verður að teljast að afrek nokkurra nýliðanna hafa verið öðrum fremri. Ólöf María Einarsdóttir 14 ára kylfingur í Golfklúbbnum Hamri á Dalvík afrekaði að fara tvisvar holu í höggi s.l. sumar og það aðeins á fjórum vikum í júlí og ágúst. Fyrst á þriðju holu á Arnarholtsvelli og svo á fyrstu holu á Selsvelli.

Böðvar Bragi Pálsson aðeins 10 ára gamall úr GR, náði að fara holu í höggi í október s.l. á 17. holunni á Korpúlfsstaðarvelli sló hann boltann með ‚dræver‘ á móti vindi sem rataði ofan í holuna. Aðeins 6 kylfingar hafa náð því afreki að fara holu í höggi undir 10 ára aldri. Árið 1994 fór Ragnar Einarsson holu í höggi þá aðeins 6 ára og er yngsti íslenski kylfingurinn sem vitað er um að hafi farið holu í höggi.

Hinrik Lárusson meðlimur í GKG er fæddur árið 1932 og var því 81 árs þegar hann fór 9. holu í Mýrinni á einu höggi s.l. sumar. Aðeins er vitað um tvo eldri kylfinga sem hafa farið holu í höggi. Arnar T. Sigþórsson er þó elstur allra. Hann var 98 ára þegar hann fór holu í höggi árið 1985, en ekki er vitað hvar atvikið átti sér stað.

Þá bættist Hans Jakob Kristinsson í hóp 17 kylfinga sem hafa náð þeim merka árangri að fara holu í höggi fjórum sinnum eða oftar, en Björgvin Þorsteinsson trónir á toppnum með 8 skráð draumahögg.

Hægt er að smella á eftirfarandi síðu SMELLIÐ HÉR:  til að finna skrá yfir alla kylfinga sem hafa farið holu í höggi frá upphafi golfs á Íslandi. Einnig eru þar ýmsar upplýsingar um afrekið sem hvern einasta kylfing dreymir um en aðeins mjög fáir fá að njóta.

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Óskarsson, formaður Einherjaklúbbsins. einherjaklubburinn@golf.is