Ragnheiður Jónsdóttir | október. 8. 2011 | 22:00

13 kvenstjörnur golfsins nr. 10: Rosie Jones

Ef íslenskir kylfingar yrðu spurðir að því hver Rosie Jones væri, þá er næsta víst að flestir sem á annað borð hefðu svar við spurningunni myndu svara: „Já var hún ekki fyrirliði Bandaríkjanna á Solheim Cup 2011?”  Og rétt er það Rosie var fyrirliði bandaríska liðsins á Solheim Cup, sem tapaði fyrir Evrópu 15:13.

En Rosie er svo miklu meira en það…

Rosie Jones fæddist 13. nóvember 1959 í Santa Ana í Kaliforníu. Hún á að baki 13 sigra á LPGA og vann sér á ferli sínum inn næstum $8.4 millijóna í verðlaunafé. Á unglingsárum sínum (1974-1976) varð hún þrívegis unglingameistari í New Mexico og vann New Mexico State Championship árið 1979. Leið Rosie lá næst í Ohio State University þar sem hún spilaði með golfliði háskólans. Árið 1981 var hún AIAW All American.

Rosie komst strax í gegnum Q-school (varð í 7. sæti) árið 1982 og spilaði því alveg frá upphafi á LPGA mótaröðinni. Besti árangur Rosie á peningalista LPGA var að verða í 3. sæti, árið 1988, en hún var jöfn annarri í því afreki að eiga flesta sigrana það ár, þ.á.m. sigur á LPGA heimsmeistaramótinu, sem Rosie vann með 1 höggi á Liselotte Neumann, sem var sigurvegari Opna bandaríska kvennamótsins það ár.

Rosie var 7 sinnum í Solheim Cup liði Bandaríkjanna. Nokkuð sérstakt við Rosie er að henni tókst aldrei að vinna risamót, en hún varð 4 sinnum í 2. sæti þ.e. á Opna bandaríska kvennamótinu (US Open) árið 1984; á LPGA Championship árið 1991; á du Maurier Classic, 2000 og Kraft Nabisco Championship árið 2005.

Rosie Jones

Rosie sigraði LPGA Corning Classic mótið tvö ár í röð og hlaut þar með viðurnefni sitt “drottningin af Corning” (ens.: Queen of Corning). Hún er sú sem unnið hefir sér inn mest verðlaunafé á þessu móti og munar miklu á henni og þeirri næstu.

Þegar Rosie dró sig í hlé og hætti keppni á LPGA mótaröðinni, eftir vonbrigði á 2006 US Open risamótinu, þar sem hún lenti í 57. sæti sagði hún: “Ég er stolt af ferli mínum. Ég myndi ekki skipta á honum fyrir neitt í heiminum. Ég vildi ég hefði sigrað á risamóti, ég lagði mig alla fram í hverju einasta höggi (að svo mætti verða). Ég hef fengið meira út úr (golf)leiknum en ég gæti nokkru sinni gefið tilbaka.”

Sem tákn þess að hún væri hætt tók hún af sér golfskó sína, skyggni og hanska og setti þau við hliðina á 18. flöt.

Rosie Jones

Frá því Rosie dró sig í hlé hefir hún spilað á Legends Tour, þar sem hún sigraði tvívegis í einstaklingskeppni árið 2007. Hún hefir einnig unnið sem golfskýrandi á Golf Channel. Hún hætti aðeins við að vera hætt árið 2008, þegar hún spilaði á undanþágu styrktaraðila á Corning Classic mótinu; það munaði 4 höggum að hún kæmist í gegnum niðurskurð. Árið 2009 öðlaðist hún þátttökurétt á Opna bandaríska, en það munaði 3 höggum að hún kæmist í gegnum niðurskurð.

Í febrúar 2010 var Rosie Jones skipuð fyrirliði bandaríska Solheim Cup liðsins, sem keppti í Killeen Castle á Írlandi núna í september 2011.

Heimild: Wikipedia