Ragnheiður Jónsdóttir | september. 22. 2016 | 05:00

HM í Mexíkó: Karlalandsliðið -1 eftir 1. dag

Íslenska karlalandsliðið í golfi hóf leik í dag leik á Heimsmeistaramóti áhugakylfinga sem fram fer í Mexíkó. Mótið fór fyrst fram árið 1958 og er keppt um Eisenhower bikarinn. Gríðarleg úrkoma setti keppnishaldið aðeins úr skorðum í morgun en um 40 stiga hiti var á meðan íslensku keppendurnir léku síðdegis. Hægt er að fylgjast með gangi mála frá Mexíkó á snappinu golf-is.

Sjá má stöðu og skor keppenda á HM með því að SMELLA HÉR: 

Guðmundur Ágúst Kristjánsson lék á 70 höggum í dag eða -1 og Andri Þór Björnsson lék á pari vallar eða 71 höggi. Tvö bestu skorin á hverjum hring telja hjá hverju liði. Haraldur Franklín Magnús lék á 76 höggum eða +5 en skor hans telur ekki í dag.

Íslenska liðið er í 20. sæti þessa stundina en 71 þjóð sendir lið til keppni.

Skotland er á -10 samtals í efsta sætinu og þar á eftir koma Ástralía -9 og Spánn -8.

Komast má á heimasíðu mótsins með því að SMELLA HÉR: 

Íslenska liðið er skipað þremur kylfingum og koma þeir allir frá Golfklúbbi Reykjavíkur; Andri Þór Björnsson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús. Landsliðsþjálfari er Úlfar Jónsson og Haukur Örn Birgisson er liðsstjóri.

Þetta er í annað sinn sem Guðmundur Ágúst (2010) og Haraldur Franklín (2012) taka þátt á HM áhugamanna en Andri Þór er nýliði á þessu sviði.

Besti árangur Íslands á HM er 19. sæti árið 2010 en þá voru þeir Ólafur B. Loftsson (GKG), Hlynur Geir Hjartarson (GOS) og Guðmundur Ágúst Kristjánsson (GR) í liðinu.

Þetta er í 16. sinn sem Ísland tekur þátt á HM en mótið fer nú fram í 30. sinn.

Texti: GSÍ