Ragnheiður Jónsdóttir | október. 10. 2013 | 10:15

125 nýir Einherjar á árinu

Undanfarin 5 ár hafa árlega um 125 einstaklingar afrekað draumahöggið „Holu í höggi“. Uppskeran þetta árið stefnir í að vera í meðallagi. Nú þegar hefur draumahögg kylfingsins verið afrekað 125 sinnum á þessu ári. Árlegu hámarki var þó náð 2010, þegar 143 kylfingum tókst hið einstaka högg.

Frá upphafi skráninga Einherjaklúbbsins, sem ná allt aftur til ársins 1939, hafa kylfingar náð að fara holu í höggi rúmlega 2.400 sinnum. Lang stærstur hluti félaga hefur aðeins farið holu í höggi einu sinni, en þeir telja þó um 250 sem hafa farið tvisvar eða oftar. Fjórir kylfingar hafa þó afrekað draumahöggið 5 sinnum eða oftar, en sá sem toppar listann hefur náð högginu 8 sinnum á ferlinum í fyrsta skipti árið 1975 og svo síðast árið 2010.

Aukning í fjölda félaga í Einherjaklúbbnum hefur vissulega verið nátengd þeim aukna áhuga sem golfíþróttin hefur hlotið undanfarin ár. Innan við 1% kylfinga afreka að fara holu í höggi á hverju ári. Hlutfallið hefur þó ekki breyst með aukinni yðkun.

Einherjaklúbburinn var settur á laggirnar 1967 af 10 kylfingum sem allir höfðu þá afrekað að fara holu í höggi. Halldór Hansen læknir var fyrstur til að fara holu í höggi á íslenskum golfvelli árið 1939, einum fjórum árum eftir að fyrsti golfvöllurinn opnaði á landinu.

Einherjaklúbburinn er eftirsóttasti golfklúbbur landsins en jafnframt með ströngustu inntökuskilyrðin, sem er að fara holu á viðurkenndum golfvelli í aðeins einu höggi. Á vegum klúbbsins er haldið utan um skráningu á draumahöggi íslenskra kylfinga. Allir nýjir meðlimir fá viðurkenningarskjal frá klúbbnum í lok tímabils og verða sjálfkrafa meðlimir í þessum einstaka hóp.

Núna í sumar hefur vefsvæði klúbbsins á einherjar.golf.is tekið breytingum. Á vefnum er hægt að nálgast upplýsingar um allar skráningar á draumhögginu sem klúbburinn hefur undir höndum. Upplýsingar um skráningar eru mis innihaldsríkar, en félagar eru hvattir til að uppfæra sýnar skráningar í gegnum vefinn.

Á vefnum er nú einnig hægt að skoða lýsingar sem kylfingar hafa gefið á afrekinu mikla, kalla fram mynd af nýjustu skorkortunum sem hafa verið send inn og ýmsa tölfræði um draumhöggið. Áfram verður þó unnið að viðbótum upplýsinga og er stefnan sett á að koma myndum af öllum innsendum skorkortum á vefinn, en félagar geta hjálpað til við þessa gagnasöfnum með því að uppfæra sýnar upplýsingar í gegnum vefinn.

Einherjaklúbburinn er í umsjá Golfsambands Íslands, en formaður klúbbsins er Guðmundur Örn Óskarsson.

Nánari upplýsingar um Einherjaklúbbinn er hægt að nálgast á einherjar.golf.is

Heimild: golf.is