10 skrýtnustu sveiflurnar í golfi – myndskeið
„Tveggja hanska“ Tommy Gainey minnti okkur á það með sigri sínum s.l. sunnudag á the McGladrey Classic hvernig gott hjartalag, dirfska og ákveðni geta yfirunnið alla tækni skv. golfkennslubókum.
Gainey er dæmi þess að ekki eru allir steyptir í eitt mót þegar kemur að sveiflum í golfi.
Hér áður fyrr áður en golfkennslan varð svona vísindaleg eins og hún er orðin í dag; áður en myndbandsupptökur fóru að móta stöðluð grundvallaratriði golfsveiflu, þá voru golfsveiflur litríkari og með persónulegri einkennum en þær eru í dag. En það þýðir ekki að uppreisnarmennirnir með heimatilbúnu sveiflurnar séu ekki þarna úti líka. Þeir eru bara ekki svo margir.
Áður en vikið verður að samantekt Golf Channel á 10 óhefðbundnustu golfsveiflum í golfsögunni er e.t.v. gott að líta á gamalt en fínt myndskeið af skrýtnum sveiflum í golfi, þar sem m.a. gefur að finna golfsveiflur: Seve Ballesteros, Allen Doyle, Josh Broadaway, Bob Murphy, Miller Barber, Gary Player, Eamonn Darcy, John Daly, Nancy Lopez, Natalie Gulbis, Moe Norman, Raymond Floyd, Jim Furyk, Jim Thorpe, Arnold Palmer og Charles Barkley (Feitletruð eru nöfn ofangreindra manna, sem sjást í myndskeiðinu og Golf Channel telur meðal þeirra 10, sem hafa skrýtnustu sveiflurnar – vantar aðeins Tveggja hanska Gainey og Hubert Green) SMELLIÐ HÉR:
1) Moe Norman
Norman lést fyrir 8 árum af völdum hjartáfalls, sem svipti þennan góða kylfing úr þessari jarðvist, en goðsögnin um Norman lifir.
Moe Norman var m.a. tvöfaldur kanadískur meistari áhugamanna og tvöfaldur kanadískur PGA meistari. Sérviska og feimni Norman urðu m.a. til þess að vera hans á PGA Tour var stutt. Moe Norman er betur þekktur sem einn af óhefðbundnum kylfingum golfsins – reyndar var hann lítt þekktur í lifanda lífi og margir sem enn í dag kannast ekki við hann.
Norman var þekktur sem “Pipeline Moe,” en hann stóð yfir boltanum eins og maður með boltaskera sem er að fara að saga í gegnum keðju. Hann var með beina og stífa arma og litla hreyfingu í höndum og hnjám. Norman gat endurtekið sveiflu sína jafnvel og hver annar ef ekki betur. Lok sveiflu hans leit út eins og hann væri að reyna að reka hníf í ský en frægð hans fólst aðallega í því hversu bein högg hans voru. Tiger Woods sagði m.a. eitt sinn um Moe að hann væri einn af tveimur kylfingum sem „ætti“ sveiflu sína, en hinn var Ben Hogan.
„Ég er bara í öðrum heimi,“ sagði Norman eitt sinn. „Ég er í heimi hins óþekkta.“
2) Eamonn Darcy
Það er auðveldara að trúa á álfa en að trúa því að Darcy hafi unnið á 4 mótum Evróputúrsins, með þeirri sveiflu sem hann er með. Írinn, Darcy, vann á Evrópumótaröðinni á 7.-9. áratugnum með sveiflu sem virtist ganga gegn eðlislögmálunum. Hægri olnbogi Darcy „flaug“. Hann fór næstum því af sporbaug sínum í baksveiflunni og vinstri handleggurinn dróst saman eins og kjúklingavængur þegar hann sveiflaði í gegn. Úr þessu kaosi gat hann framleitt falleg högg; högg, sem voru nógu góð til þess að sigra Ben Crenshaw árið 1987 í tvímenningi þegar Evrópa vann Ryder bikarinn í Muirfield Village.
3) Miller Barber
Barber vann 11 PGA Tour mót og var samtímamaður Arnold Palmer með baksveiflu sem var þannig að á toppnum var kylfa Barber næstum því upprétt eins og elding. Einhver lýsti sveilfu Barber svo að hún líktist því að maður væri að opna regnhlíf í hvassviðri. „Eftir að ég tek lykkju með kylfunni inni í niðursveiflunni, lít ég út eins og hver annar góður kylfingur,“ sagði Barber eitt sinn. „Það er niðursveiflan sem skiptir öllu.“
4) Hubert Green
Green vann 19 PGA Tour titla á 7. og 8. áratugnum og tveir þeirra voru risamótstitlar, með sveiflu sem honum líkaði ekki við. Nú, Green grínaðist með að sér líkaði ekki sveiflan sín. „Ég sá hana eitt sinn á upptöku og gubbaði næstum því,“ sagði hann s.s. frægt varð. Sveifla Green var þétt og hröð og hann notaði úlnliðshreyfingar svo mikið að fólk sem á horfði verkjaði í úlnliðinn. Greinarhöfundur Los Angeles Times, Jim Murray sagði eitt sinn: „Sveifla hans er líkust róna, sem er að reyna að hitta á skráargat með lykli sínum í myrkri.“
5) Arnold Palmer
Meðal einkennissveiflna skrýtnu sveiflanna, er sveifla Palmer klassísk. Ef þið sæjuð bara skuggamynd af sveiflunni mynduð þið strax vita hver ætti hana. Palmer sveiflaði ekki – hann hitti boltann. Hann smassaði boltann með höggi járnsmiðs og þessari gormalínulagaðri endingu allur í hnipri. Með sveiflu sinni vann hann þó 62 titila á PGA Tour og 7 risamótstitla.
6) Bob Murphy
Ef þið væruð á móti að horfa á Murphy í baksveiflu þá gætuð þið eflaust skotist og keypt ykkur pylsu í pylsustandinum þarna rétt hjá og snúið við aftur rétt í þann mund sem hann væri að klára sveiflu sína. Það tók hann endalaust langan tíma að slá boltann eftir að næstum stoppa á toppi sveiflunnar. Það var ritmi Murphy sem gerði sveiflu hans svona óvenjulega og sérstaka. Hann vann fimm PGA Tour titla milli 6. og 8. áratugar s.l. aldar.
7) Raymond Floyd
Sveifla hans var hvergi nærri á réttri línu í sveifluplaninu – hann var fyrir innan línu þegar hann tók kylfuna tilbaka og hendur hans sneru til himins í toppi sveiflunnar áður en hann droppaði kylfuna innan sveifluplansins í klassískari stöðu í átt að boltanum. Heimatilbúin sveifla Floyd færði honum þó sigur í 22 mótum PGA Tour, þ.á.m. 4 risamótum.
8) Jim Thorpe
Sveifla Thorpe er meira eins og illskulegt högg en golfsveifla, en með henni vann Thorpe þó þrívegis á PGA Tour á 8. áratugnum og 13 sinnum seinna á Champions Tour. Hann vindur auk þess svo upp á líkamann eins og gormur að það lítur út eins og það myndi brjóta hryggjarlið í venjulegum manni. Thorpe segir oft og hefir það eftir golffréttaskýranda NBC, Johnny Miller (sem sjáflur var frábær kylfingur) að sveifla sín „hafi fleiri hreyfingar en Kung Fu.“
9) Jim Furyk
David Feherty er sagður hafa lýst sveiflu Furyk sem líkasta því að kolkrabbi væri að detta úr tré, þegar hann sveiflar, en þessi sama sveifla hefir fært Furyk 16 PGA Tour titla, þ.á.m. sigurinn á Opna bandaríska 2003. Hann er með tvöfalt yfirgrip (ens. double overlapping grip) tekur lykkju út fyrir þegar hann er að draga kylfuna aftur og aðra lykkju innfyrir sveifluplanið þegar hann er í niðursveiflu. Sveifla Furyk er ein einkennilegasta sveiflan af samtíðamönnum hans.
10) Tommy “tveggja hanska” Gainey
Maður sem reynir að drepa kakkalakka með kúbeini er nær grundvallaratriðum golfíþróttarinnar en Gainey, en fegurðin í sveiflu Gainey felst í því að hún bara virkar svo vel að nú er hann meðal þeirra sem sigrað hafa PGA Tour mót. Hann vann McGladrey Classic mótið með henni. Óhefðbundin sveifla Gainey hefst þegar á óhefðbundinni uppstillingu hans. Hann hefir gífurlega fast grip og snýr lófi hægri handar hans næstum upp. Hann hniprar sig lægra yfir boltann en flestir kylfingar. Í sveiflu hans er svolítið af lyftu, síðan dýfu og hann hangir aftur þegar hann fer í gegn. En hann var á 60 höggum s.l. sunnudag á Seaside golfvellinum í Sea Island, í Georgíu og á vallarmetið þar!
Heimild: The Golf Channel
- ágúst. 31. 2024 | 20:00 Golfgrín á laugardegi (8/2024)
- ágúst. 31. 2024 | 17:30 LET Access: Ragnhildur úr leik – Guðrún Brá enn við keppni
- ágúst. 31. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Elías Kristjánsson – 31. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Amanda Moltke-Leth – 30. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 05:52 Íslandsmót golfklúbba: Golfklúbbur Fjallabyggðar Íslandsmeistari í 3. deild karla
- ágúst. 30. 2024 | 05:30 Unglingamótaröðin 2024: Eva Íslandsmeistari í holukeppni í fl. 17-18 ára stúlkna
- ágúst. 29. 2024 | 23:00 Áskorendamótaröð Evrópu ´24: 4 íslenskir kylfingar meðal keppenda í Konopiska
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 Unglingamótaröðin 2024: Veigar Heiðarsson Íslandsmeistari í holukeppni í piltafl.17-18 ára
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 LET Access: Guðrún Brá og Ragnhildur meðal keppenda á Get Golfing Womens meistara- mótinu
- ágúst. 29. 2024 | 17:00 Hjördís fór holu í höggi!
- ágúst. 29. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingar dagsins: Sigríður Anna Kristinsdóttir og Aron Atli Bergmann Valtýsson 29. ágúst 2024
- ágúst. 28. 2024 | 21:00 GFH: Þorbjörg og Kjartan Ágúst klúbbmeistarar 2024
- ágúst. 28. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Lee McLeod Janzen —– 28. ágúst 2024
- ágúst. 27. 2024 | 18:00 PGA: Bradley sigraði á BMW meistaramótinu
- ágúst. 27. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Aldís Ósk Unnarsdóttir – 27. ágúst 2024