Hlynur Geir Hjartarson, golfkennari og framkvæmdastjóri GOS. Mynd: Golf 1.
Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 16. 2012 | 18:00

GOS:„Golf er fyrir alla“ eftir Hlyn Geir Hjartarson, framkvæmdastjóra GOS

Á heimasíðu Golfklúbbs Selfoss (GOS) er góð grein eftir framkvæmdastjóra GOS og einn af okkar fremstu kylfingum:

„Það hefur valdið mér, sem golfkennara og framkvæmdarstjóra GOS,  hugarangri hvers vegna stúlkur á öllum aldri velja sér ekki golf sem íþrótt, útivist og áhugamál. Það vantar stúlkur í klúbbinn okkar, hlutfall kvenna í klúbbnum er allt of lítið. Reyndar er þetta landlægt vandamál og jafnvel á heimsvísu.  Golf er þess eðlis að það er einfaldlega aldrei of seint að byrja spila golf. Auðvitað hjálpar að byrja snemma, en það þarf ekki að vera vísir að árangri. Ekki eru allir með sömu markmið í sínu golfi, sumir vilja spila golf með vinum, maka, fjölskyldu og njóta frábærar útiveru í grænni náttúrunni, skorið er aukaatriði. Aðrir þrífast á keppnum og leyfa keppnisskapinu leika lausum hala.

Ég vil með þessari grein hvetja stúlkur á öllum aldri að kynna sér golfíþróttina og upplifa hversu frábær hún er.

Við hjá Golfklúbbi Selfoss tökum vel á móti öllum konum, jafnt sem körlum, sem vilja prófa sig áfram og sjá hvort íþróttin hentar viðkomandi.

Golfklúbbur Selfoss ætlar að bjóða konum á aldrinum 25-40 ára frábært tilboð frá deginum í dag til 15. maí.  Árgjald á  kr. 9.900,- og fría golfkennslu fyrir þær sem eru nýliðar og einnig þær sem eru með meira en 32 í forgjöf.

Að lokum vil ég hvetja stúlkur og drengi að prófa að mæta á golfæfingar í sumar og sjá sjálf að golf er „ töff“ íþrótt og ég tala nú ekki um forvarnir gegn allskyns ósóma. Það er ekki til betri staður fyrir börn að alast upp á heldur en í golfi, þar sem ríkja reglur, mannasiðir og krakkarnir fá góðan skóla út í lífið í golfklúbbum.

Með golfkveðju.

Hlynur Geir Hjartarson.“