Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 2. 2015 | 08:45

WGC: Bradley og Jiménez rifust – Myndskeið

Svona á ekki að sjást á heimsmóti.  Tvær stórstjörnur golfsins að hnakkrífast!  Keegan Bradley og Miguel Ángel Jiménez.

Vissulega eru menn skapheitir og oft talið að ákveðinn karakter þurfi til þess að komast áfram í golfinu.

En come´on!   Sjá má myndskeið af rifrildi Keegan Bradley/kylfusveinsins Pepsi annars vegar og Miguel Ángel Jiménez hins vegar á Cadillac heimsmótinu í holukeppni með því að SMELLA HÉR: 

Það sem gerir þetta líka grátbroslegt er að hvorugur átti sjéns á sæti í 16 manna riðlinum – báðir með úrslitin 0-2 í fyrstu umferðunum.

Breytti engu!  Þeir hnakkrifust í gær á 18. holu TPC Harding Park í San Francisco, þar sem Cadillac heimsmótið í holukeppni fer fram.

Þetta byrjaði allt þegar Jiménez dró í efa dropp sem Bradley hafði fengið.  Kylfusveinn Bradley Steve „Pepsi“ Hale kom kylfingi sínum til aðstoðar og Jiménez sagði honum að „halda kjafti.“

Bradley æstist við þetta og sagði: „Segðu honum aldrei að halda kjafti. Þú skalt aldrei nokkurn tímann segja honum að halda kjafti.

Droppið fékk Bradley eftir að hann hafði slegið dræv sitt til vinstri við 18. brautina yfir girðingu, sem dæmd hafði verið tímabundin ófæranleg hindrun.  Bradley talaði við dómarann Russell Swanson og var að fara að taka tvö dropp eitt frá girðingunni og annað af golfbílastígnum.

Það var þá sem Jiménez kom yfir og staðhæfði að Bradley væri að taka vitlaust dropp.  Allt fór úr böndunum upp úr þessu.  Orðaskipti áttu sér stað milli kylfinganna á 18. flöt eftir leikinn sem reynsluboltinn Jiménez sigraði 2 Up, og vel var orðið heitt í búningsklefanum út af þeim orðum sem féllu.

Þessir náungar eru allir A-týpu persónuleikar (Alfa Male = Forystumenn, vilja stjórna og að á þá sé hlustað) og samkeppnisaðilar og það hangir mikið á spýtunni – þeir eru stoltir og skiptust á skoðunum þarna,“ sagði varaforseti reglna og keppna hjá PGA Tour, Mark Russell. „Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist og verður ekki það síðasta. Haldið þið að þessir náungar vilji tapa fyrir hvor öðrum? Alls ekki.

Þetta var ekki í lagi. Þetta (Golfið) er heiðursmannaíþrótt, en af og til sýður upp úr í þessum leik. Það er mjög óheppilegt að þetta skyldi hafa gerst.“

Þegar Jiménez mætti í viðtal gerði hann lítið úr þessu atviki.

Hvað svo sem gerðist þarna, því er lokið,“ sagði Jiménez. „Það er allt í lagi núna. Það er í fínu lagi. Ég vil ekki tala um það (dropp-dóminn). Hringurinn er búinn og allt er búið. Þessu er lokið.  Það hefir engan tilgang að segja neitt.“

Bradley var samt enn greinilega æstur og talaði við blaðamenn á bílastæðinu við klúbbhúsið eftir leikinn.

Mér fannst hann sýna af sér óvirðingu ekki aðeins gagnvart mér heldur líka kylfusveininum mínum,“ sagði Bradley. „Ég var að verja strákinn (kaddýinn) minn þarna.

Þetta var bara það sem gerðist í hita augnabliksins. Þetta olli vonbrigðum. Ég er ansi reiður yfir þessu. Þetta var bara … ég var búinn að fá dóm …. og honum fannst að hann þyrfti að skipta sér af og mér fannst það bara óviðeigandi gagnvart mér og kaddýnum mínum.“

Ég ber ekkert nema virðingu fyrir honum. Hann er frábær kylfingur. En ég verð að geta varið mig ef mér finnst eitthvað gert  á minn hlut.

Þegar var þegar orðið stirt milli þeirra Jiménez og Bradley á 13. holu þegar Jiménez gaf Bradley stutt fuglapútt en fór fram á úrskurð dómara á undan áður en hann droppaði sínum eiginn bolta.

„Grundvallaratriðið er hvað er viðeigandi hegðun þegar maður hlýtur dóm og dómarinn er þarna rétt hjá og ef maður vill fylgjast með þá er það í lagi, en hefir hann rétt á að sitja þarna og segja „Þið voruð að hafa rangt við?“ sagði Pepsi (kylfuberi Bradley) um uppákomuna á 18. braut. „Þetta er eitt af því mest óviðeigandi sem ég hef nokkru sinni séð á golfvelli.

Ég var að reyna að verja kylfinginn minn. En þegar ég kem þarna til að verja Keegan, þá segir Miguel mér að halda kjafti. Það fór ekki vel í mig. Ég varðist og síðan varði Keegan mig. Þetta (atvikið) situr ekki vel í mér.“

Pepsi tók ekki í útrétta hendi Jiménez eftir leikinn, s.s. sjá má í myndskeiðinu hér að ofan.