Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 22. 2016 | 05:30

Valdís Þóra ritar um þjálfara sem drepa ástríðu fyrir leiknum

Á facebook síðu sína skrifar atvinnukylfingurinn „okkar“ Valdís Þóra Jónsdóttir, úr GL, athyglisverða grein, sem á erindi við alla.

Þar bendir Valdís á grein sem henni finnst góð og hún segir að hún hafi séð sjálfa sig í, en greinin heitir „The Coach That Killed My Passion.“ Sjá má greinina með því að SMELLA HÉR: 

Viðfangsefnið eru þjálfarar sem mismuna íþróttamönnum, en sjálf segist Valdís Þóra hafa haft kynni af einum slíkum þjálfara á námsárum sínum í Bandaríkjunum og líkt og í öllum tilvikum þar sem menn verða fyrir mismunun skiptir baklandið svo óendanlega miklu máli og var sem betur fer í tilviki Valdísar gott og mikið.

Þeir sem eru í kennslu- og leiðbeinenda/þjálfarahlutverki eiga ekki að mismuna nemendum sínum, en því miður virðist  á öllum tímum, sem það hafi viðgengist, að miklu leyti átölulaust.

Það á ekki að líðast að hæfileikamiklir nemendur á hvaða sviði sem þeir eru, séu brotnir niður og ástríða þeirra fyrir viðfangsefninu eyðilögð.

Að fyrirmynd, sem Valdís Þóra er, skuli loks hefja máls á svo þörfu umræðuefni er ómetanlegt og ekki hægt að fyllast öðru en reiði yfir að hún skuli hafa orðið að þola slíka framkomu á námsárum sínum í Bandaríkjunum en einnig aðdáun að hún virðist hafa risið yfir óréttlætið og orðið sterkari fyrir vikið, jafnvel svo að hún gerir nokkuð sem fæstir gera: skrifar um reynslu sína.

Það er þetta sem sumir leiðbeinendur ilja sér við – þ.e. að þeir séu slæmir en það sé til góðs fyrir þá sem þeir þjálfa og þá vakna til lífs setningar eins og:  „Tough love“ eða „What doesn´t kill you makes you stronger“  (eins og kemur t.a.m. fram í lagi Kelly Clarkson – sjá með því að SMELLA HÉR: ) – Þetta finnst þessum hetjum vera ein dýrmætasta lexían sem hægt sé að kenna nemendum (á hvaða sviði sem er, því þessa lexíu megi í raun yfirfæra yfir á hvaða svið lífsins sem er) að ekki eigi að brotna undan mótlæti heldur berjast.  Það sem gleymist oft er að það verður að vera meðalhóf í mótlætinu, það má ekki verða skemmandi eins og það er oftsinnis.

Hér birtist facebókarfærsla Valdísar Þóru:

„Þetta er frábær grein sem svo margir geta tengt við. Á tímabili fannst ég vera lesa orð mín þó svo að mín reynsla hafi sem betur fer ekki verið alveg svona slæm.
Þjálfarinn minn úti í háskóla var ekki sá besti. Hann kom illa fram við þá sem honum líkaði ekki við og hampaði þeim sem honum líkaði við. Ég veit ekki hversu oft ég ætlaði að hætta í þessum skóla einungis vegna framkomu þjálfarans í minn garð. Ég fékk ekki fullan háskólastyrk vegna þess að ég var ekki með GPA upp á 4.0 (9-10 í öllum áföngum). Það var einfaldlega ómögulegt í því námi sem ég var í og reyndu námsráðgjafarnir stöðugt að segja honum það. Ég þurfti að mæta í svokallað „study hall“ allar mínar annir nema eina á þeim fjórum árum sem ég var þarna. Flestir þurfa bara að mæta í eitt ár. Það breytti engu máli hvað ég gerði í golfinu, hvort sem ég leiddi liðið eða hvort ég var ekki alveg uppá mitt besta. Þegar ég varð jöfn í fyrsta sæti í móti eftir lokahringinn var öllu liðinu Hent upp í bíl og keyrt af stað út á flugvöll. Ég fékk ekki að fara í bráðabanann af því að þá myndum við missa af fluginu. Í næsta móti var sama upp á teningnum nema að það var uppáhaldið hans sem var í baráttunni og ég mun aldrei gleyma því sem kom út úr munni hans þá. „If X is tied in first we will miss our flight so she can play the tiebreaker.“ Það eru fá orð sem hafa stungið jafn mikið og þessi eina setning.
Það vildi til að námsráðgjafarnir voru í mínu liði og hreinlega leyfðu mér að senda þeim SMS um hvenær ég var að læra og hvenær ég var búin að læra, oft seint að nóttu þá sérstaklega þegar verkefnaskil nálguðust.
Þegar ég útskrifaðist þá var löngunin fyrir atvinnumennsku ekki sterk. Hún var varla til staðar. Því þessi maður var búinn að koma því inn í hausinn á mér að ég yrði aldrei nógu góð. Aldrei betri en einn ákveðinn liðsfélagi og vinkona mín. Ætti ekki séns. Þess má geta að ég er ofar en hún á heimslistanum í dag.
Sumarið eftir háskólann var eins og þungu fargi hafi verið af mér létt. Ég þurfti aldrei að spila fyrir þennan mann aftur. Ég gat spilað fyrir mig loksins og þegar ég áttaði mig á því að þá loks fann ég neistann aftur. Gleðina. Löngunina til að æfa mig og til að keppa.
Ég hefði aldrei klárað þennan skóla hefði það ekki verið fyrir námsráðgjafana mína þau Laurie og Matt, sjúkraþjálfarinn minn hann David Gish heitinn og baklandið mitt á Íslandi.
Ég vill biðja alla þjálfara að koma vel fram við leikmennina sína með uppbyggjandi og hvetjandi orðum en ekki niðurbroti. Því þannig eiga íþróttamennirnir séns á að blómstra. Sumir taka bara lengri tíma en aðrir og það er allt í lagi en ekki brjóta þá niður fyrir það og mikilvægast af öllu, aldrei að taka ástríðuna fyrir leiknum frá íþróttamanninum.“