Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 10. 2017 | 19:00

Poulter og Willett með nýja kaddýa á The Players

Danny Willett, 29 ára, Masters sigurvegari 2016, var rekinn af kylfusveini sínum Jonathan Smart eftir heiftúðlegt rifrildi milli þeirra á 1. hring RBC Heritage, í Suður-Karólínu, í síðastliðnum mánuði.

Jonathan var á pokanum þegar Willett sigraði á Masters. Þeir hafa verið vinir frá því þeir voru 13 ára; Smart hefir verið á pokanum hjá Willett frá árinu 2010 og þeir hafa hingað til virtst óaðskiljanlegir.  Kannski „the 7-year itch“ eins og gerist í  hjónaböndum?

Á RBC Heritage reifst Willett við Smart vegna þess að hann taldi Smart hafa gefið honum upp ranga fjarlægð að holu.

Þetta var vikuna eftir að Willett náði ekki niðurskurði á Masters, þar sem hann var að reyna að verja titil sinn.

Smart svaraði Willett fullum hálsi og sagðist vera orðinn langþreyttur á því að vera blóraböggull á slæmu gengi Willett, hann tók næstu flugvél heim til Englands og Willett varð að notast annan mann í teymi sínu til að vera á pokanum hjá sér.

Sá þurfti reyndar ekki að vera lengi á pokanum; því Willett komst ekki í gegnum niðurskurð á RBC og var þetta í 3. skiptið af 5 síðustu PGA Tour mótum Willett, sem hann hefir ekki komist í gegnum niðurskurð.

Willett keppir nú aftur í fyrsta sinn á morgun, nú á The Players, frá því rifrildið við Smart átti sér stað og verður með nýjan kylfusvein, annan æskuvin, Sam Haywood, á pokanum, en sá var svaramaður við brúðkaup hans fyrir 4 árum.

*************************

Poulter ásamt gamla kylfusveini sínum

Poulter ásamt gamla kylfusveini sínum og vini Terry Mundy – sem áfram verður í teymi Poulter

En Willett er ekki sá eini sem verður með nýjan kylfusvein á The Players.

Kylfusveinn Ian Poulter til 11 ára, Terry Mundy,  er hættur og Poulter kominn með enska kylfuberann James Walton á pokann, en sá hefir m.a. unnið með mönnum eins og Svíanum Robert Karlsson og Noh Seung-yul frá S-Kóreu.

Ástæður þess að Mundy hættir hjá Poulter gætu ekki verið ólíkari en hjá Willett/Smart.

Mundy hefir þjáðst lengi af bakverkjum og nú er svo komið að hann getur bara ekki lengur borið pokann fyrir vinnuveitanda sinn.

Og til að leggja áherslu á, í hversu miklum metum Mundy er hjá Poulter þá réði Poulter hann bara í annað starf hjá sér þ.e. í framkvæmdastjórastöðu, en Mundy mun framvegis sjá um allt á ferðalögum Poulter milli móta og áfram vera hluti af teymi hans.

Þetta eru ekki einu breytingarnar hjá Poulter – hann hefir skipt um umboðsskrifstofu – IMG mun ekki framvegis sjá um mál hans heldur Paul Dunkley, sem var fyrsti umboðsmaður hans þegar Poulter gerðist atvinnumaður fyrir meira en 20 árum.

The Players er fyrsta mótið sem Poulter spilar á frá því hann missti kortið sitt á PGA Tour en hlaut það síðan aftur – og nú er um að gera fyrir hann að standa sig …. þannig hann haldi kortinu sínu á PGA áfram!!!