Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 13. 2017 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA 2018: Corey Conners (31/50)

Það voru 25 efstu á peningalista Web.com Tour sem hlutu kortin sín og þar með fullan spilarétt á PGA Tour, keppnistímabilið 2017-2018.

Golf 1 hefir haft þann vana á undanförnum árum að kynna alla þessa 50 nýju og ekki svo nýju, sem hins vegar hljóta spilarétt sinn að nýju á PGA Tour í gegnum 2. deildina, Web.com Tour.

Byrjað var á því að kynna þá 25 sem efstir voru á peningalista Web.com Tour og hlutu þannig kortin sín í 1. deild, PGA Tour.

Líkt og venja er hér á Golf 1 var byrjað að kynna þann, sem rétt slapp inn í gegnum peningalistann og síðan endað á þeim sem var á toppnum. Hann var kynntur í gær, Chesson Hadley, efsti maður á peningalista Web.com Tour 2017.

Nú verður tekið til við að kynna þann sem rétt slapp inn í gegnum Web.com Finals og endað á þeim sem var á toppnum þar, en þeir 25 hljóta einnig spilarétt og kort fyrir 2017-2018 keppnistímabilið á PGA Tour.

Sá sem var í 20. sæti og komst inn á PGA Tour í gegnum Web.com Tour finals er Corey Conners frá Kanada en hann var með verðlaunafé á Web.com Finals upp á samtals $45,114.

Corey Conners fæddist í Listowel, Ontario, í Kanada, 6. janúar 1992 og er því 25 ára.

Hann á 2 systur Nicole og Sarah og Nicole er tvíburasystir Corey.

Conners gerðist atvinnumaður í golfi 2015.

Meðal áhugamála Conners utan golfsins er íshokkí og að fara á fiskveiðar.

Conners var í íshokkíliði menntaskólasíns og sigraði m.a. í Provincial Hockey Championship.

Uppáhaldsatvinnumannalið Conners er Toronto Maple Leafs.

Meðal vina Conners er félagi hans á PGA Tour Mackenzie Hughes, en þeir voru saman í ungmennagolfstarfinu í Kanada og spiluðu í bandaríska háskólagolfinu með Kent State, líkt og þeir Bjarki Péturs og Gísli Sveinbergs leika nú með.

Stærðfræðin hefir alltaf legið vel fyrir Conners, reyndar þykir hann stærðfræðisnillingur og það var einnig fag hans í háskóla.

Conners spilaði á  Mackenzie Tour í Kanada, 2015; PGA TOUR Latinoamérica: 2016 og hefir spilað á Web.com Tour nú í ár, 2017.

Næsta ár, 2018, spilar Corey Conners á mótaröð þeirra bestu, bandaríska PGA Tour!