Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 4. 2016 | 21:00

Lokaúrtökumót LPGA: Sögulegt!!! Ólafía Þórunn varð í 2. sæti á lokaúrtökumótinu – Fyrsti íslenski kylfingurinn á LPGA!!!

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, lauk lokahringnum á lokaúrtökumóti LPGA, sem fram fór á LPGA International á Daytona Beach í Flórída á 1 yfir pari, 73 höggum.

Samtals lék Ólafía Þórunn á 12 undir pari, 348 höggum (74 66 67 68 73).

Hún er fyrst íslenskra kvenkylfinga til þess að ávinna sér fullan keppnisrétt á sterkustu kvenmótaröð heims, LPGA mótaröðinni. Ólafía Þórunn skrifar sig því í golfsögubækur ekki aðeins Íslands heldur einnig LPGA, sem fyrsti íslenski kylfingur mótaraðarinnar með fullan keppnisrétt.

Og Ólafía Þórunn ávann sér þann rétt á stórglæsilegan máta; varð í 2. sæti á lokaúrtökumótinu. Það ná engin orð að lýsa því hversu frábær Ólafía Þórunn er og hversu stolt við erum öll af henni!!!  Vel gert!!!

Jaye Marie Green, sem var með Ólafíu Þórunni í lokaráshópnum, sigraði, en hún hefir áður sigrað í lokaúrtökumóti LPGA 2013. Aðeins 1 höggi munaði á henni og Ólafíu Þórunni, en sigurskor Green var 13 undir pari, 347 högg (68 68 67 70 74).

Í 3. sæti í mótinu varð vinkona Ólafíu Þórunnar, Angel Yin, en hún var á 11 undir pari.

Nasa Hataoka frá Japan, sem um skeið var í efsta sæti í lokaúrtökumótinu rann hættulega langt niður skortöfluna en náði þó að vera í hópi þeirra 20 sem fá fullan keppnisrétt, lék á 5 undir pari. Hill völlurinn reyndist henni erfiður en hún lék hann bæði í gær og í dag á 75 og 78 höggum, sem olli falli hennar.

Sjá má lokastöðuna í lokaúrtökumóti LPGA með því að SMELLA HÉR: 

Þetta fyrsta lokaúrtökumótið í langan tíma þar sem ekki þarf að fara fram bráðabani um hver af einhverjum sem eru jafnir í neðstu sætunum nái að vera meðal efstu 20.

Gaman var að sjá að fjöldi Íslendinga fylgdist með Ólafíu Þórunni bæði í Flórída og síðan líka á Twittersíðu Golfsambands Íslands, en GSÍ á þakkir skyldar fyrir skemmtilega lýsingu á leik Ólafíu lokahringinn – en Íslendingar eru heldur engum líkir þegar kemur að því að styðja sína menn.

Golf 1 óskar Ólafíu Þórunni og fjölskyldu hennar innilega til hamingju með þennan framúrskarandi árangur!

Þess ber að lokum að geta að Golf 1 mun líkt og undanfarin ár vera með kynningu á þeim 20 stúlkum sem hlutu fullan þátttökurétt á LPGA í gegnum lokaúrtökumótið.