Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 12. 2014 | 10:00

Elín útskrifast

Fyrrum eiginkona Tiger Woods, Elín Nordegren útskrifaðist s.l. laugardag, 10. maí 2014 frá Rollins College í Flórída.

Hún er búin að vera í „öldungadeild“ s.l. 9 ár (þ.e. hefir tekið námið hlutavís) og er nú BA í sálfræði. Elín var efst í árgangnum (300 manns) þ.e. var með 3,96 í meðaleinkunn (mest er gefið 4 í einkunn í Bandaríkjunum). Fyrir vikið hlaut Elín, Hamilton Holt Outstanding Senior Award.

Það varð til þess að hún varð að halda útskriftarræðuna í árgangnum og fór langt fram úr væntingum margra þegar hún hélt fyndna, tignarlega og a.m.k. eftirminnilega útskriftarræðu.

Elín Nordegren er miklu meira en módel og fallegt andlit - Hún varð efst í útskriftarárgangi sínum og hélt útskriftarræðuna í Rollins College í ár!

Elín Nordegren er miklu meira en módel og fallegt andlit – Hún varð efst í útskriftarárgangi sínum og hélt útskriftarræðuna í Rollins College í ár!

Í henni sagði hún m.a.: „Menntun hefir verið eini stöðugi þátturinn í lífi mínu undanfarin 9 ár. Hún hefir verið þægileg. Menntun er nokkuð sem ekki er hægt að taka frá manni.“ Hún minntist á það þegar henni var hent í kastljós fjölmiðlaathygli eftir framhjáhaldsskandal þáverandi eiginmanns hennar, núverandi nr. 1 á heimslistanum, Tiger Woods, þegar hún sagði: „Mér var varpað óvænt í kastljós fjölmiðla. Ég hefði líklega átt að taka betri glósur í (samskipta og fjölmiðla) tímunum mínum!“

Það eru alltof margar konur sem hljóta athygli vegna frægðar eiginmanns og má segja að Elín Nordegren hafi verið fyrsta flokks dæmi um það. Hverjum hefði ekki verið sama um litla, ljóshærða, sænska barnapíu ef hún hefði ekki verið eiginkona fremsta kylfings heims? Með menntuninni er Elín að raungera eigið sjálf. Mörgum finnst sem hún þurfi þess ekki; Hún hafi næga peninga, en svo er nú samt ekki meðal örfárra maka þeirra ríku og frægu. Þegar frægu makarnir hljóta alla athyglina og hinn makinn sjálfkrafa með án þess að hafa unnið til þess, þá verður þörfin fyrir að sýna fram á eigin verðleika stór og enn stærri þegar kemur til sambandsslita eins og gerðist í tilviki Tiger og Elínar.

Elínu finnst mikilvægt að standa á eigin fótum að sýna sjálfri sér fram á að hún sé nógu góð, vegna þess sem hún hefir til brunns að bera, vegna þess sem hún gerir, en ekki vegna Tiger. Með þessu er hún að öðlast enn meiri fjarlægð frá honum. Hún samsamar sig ekki lengur Tiger og leitast við að vera ekki skilgreind vegna hans.

Það eru til svo fjöldamörg dæmi um konur sem baða sig í athygli og ná frama vegna kærasta eða eiginmanna. Shaunie O’Neal, fyrrum eiginkona körfuboltagoðsagnarinnar Shaquille O’Neal var þannig með sjónvarpsþátt sem hét Basketballwives. Frú Alec Baldwin fór úr því að vera jógakennari í sjónvarpsstjörnu, Frú Jerry Seinfeld skrifaði matreiðslubók fyrir börn, sem varla hefði hlotið nokkra athygli nema vegna þess að hún var frú Seinfeld. Allar fyrrum kærustur George Clooney enduðu sem módel, sem sjónvarpsstjörnur í þáttum á borð við Dancing with the Stars, í raunveruleikaþáttum eða samblandi af hvorutveggja. Verðandi frú Clooney virðist þó vera undantekning. Amal Alamuddin virðist ekki þurfa á Clooney að halda til að vekja athygli reyndar verður e.t.v. vísað til hans sem Hr. Alamuddin á næstunni 🙂 Amal hefir líkt og Elín staðið föst á að skilgreina sjálfa sig og gera eitthvað úr sjálfri sér. Því eins og Elín segir er það þegar allt kemur til alls það eina sem ekki er hægt að taka frá manni! … sem verður enn mikilvægara fyrir konur þegar þær eldast og þær verða í sumum tilvikum „verðlausar“ og er kastað í burtu af frægum eiginmönnum sínum, eins og fjöldamörg dæmi eru fyrir. Þá er gott að hafa skapað sitt eigið nafn, vera það sem maður er, en ekki eitthvað sem aðrir hafa skilgreint mann að vera á grundvelli annars aðila, fv. kærasta eða maka.

Elín hefur sýnt svo ekki verður um villst að hún er miklu meira en fallegt andlit og fyrrum eiginkona Tiger. Og hún segir tilgang sinn með því að fara aftur í skóla líka vera þann að hvetja aðrar konur til að gera slíkt hið sama:

Þannig sagði Elín við People Magazine: „Ef ég get veitt aðeins einni móður innblástur að fara aftur í skóla og ná gráðu með þeim skilaboðum að það sé aldrei of seint, þá er ég ánægð.“