Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 28. 2014 | 13:30

Wozniacki tapaði á Opna franska eftir sambandsslitin við Rory

Danska tennisstjarnan Caroline Wozniacki er dottin út úr Opna franska eftir tap fyrir belgísku stúlkunni Yaninu Wickmayer.

Caroline tapaði fyrsta leik sínum og síðan lotunni allri með skor upp á 7-6, 4-6, 6-2.

Í viðtali við blaðamenn eftir tapið bað Wozniacki þá að virða einkalíf sitt og spyrja ekki um sambandsslitin við Rory.

„Það eina sem ég hef að segja um það er að ég þakka öllum fyrir stuðninginn og fallegu skilaboðin,“ sagði Caroline. „Það var fallega gert. Það sem gerist í einkalífi mínu vil ég halda milli mín og minna nánustu.  Ég verð bara að halda áfram.“

Aðspurð hvort erfitt hefði verið að einbeita sér að mótinu vegna þess sem gerst hefði í lífi hennar sagði Wozniacki „ég reyndi að einbeita mér að leiknum og að því sem ég þurfti að gera.“

„Það gerði það ekki auðveldara að ég hef ekki getað spilað mikið þar sem ég hef verið meidd. Mér fannst ég svolítið ryðguð og þetta var ekki góður leikur. En ég reyndi.“

Tapið kemur aðeins viku eftir sambandsslitin við Rory, en þau höfðu verið trúlofuð frá 31. desember 2013.