Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 15. 2013 | 09:00

Wilcox með 59 á Web.com

Fjórða 59-an í sögu Web.com Tour dugði ekki til þess að sigur ynnist á Utah Championship í gær.

Will Wilcox náði að brjóta 60 með hring á par-71 Willow Creek Country Club í Sandy, Utah, þar sem hann fékk 1 örn og 10 fugla.

Það dugði samt ekki til sigurs eins og segir en Wilcox var 1 höggi á eftir Steven Alker frá Nýja Sjálandi og Ashley Hall frá Ástralíu, sem fóru í bráðabana, þar sem Alker sigraði, þökk sé pari á 1. holu.

Wilcox varð að sætta sig við að deila 2. sætinu.

Wilcox sagði m.a. eftirfarandi eftir 59 högga hring sinn: „Með aðstæðunum eins og þær voru og pinnastaðsetningunum til vinstri þá tókst mér að setja niður nokkur góð pútt. Þetta var stórkostlegt. Þetta er það sem alla kylfinga dreymir um og á par-71 velli, þá virðist það aðeins framkvæmanlegra.“

Wilcox hóf leik á lokahringnum í 38. sæti og náði 59 með 2 metra fuglapútti á lokaholunni (sem var par-4, 9. holan).  Þar með er hann kominn í hóp þeirra 3 sem náð hafa 59 högga hring á Web.com túrnum á undan honum þ.e.: Notah Begay, Doug Dunakey og Jason Gore.