Jimmy Walker ásamt fjölskyldu eftir sigurinn á Sony Open í Honolulu á Hawaii í ársbyrjun Mynd: pgatour.com
Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 15. 2014 | 10:00

Jimmy Walker og fjölskylda búa í húsvagni á keppnisferðalögum

Hvernig lífi lifir maður þegar maður er „heitasti kylfingur í heimi?“

Jimmy Walker myndi segja ykkur að það sé frábært jafnvel þó hann búi eins og er ekki við mikinn lúxus, a.m.k. ekki eins mikinn og hann hefir efni á.

Nei, Walker er ekkert að dekra við sig og fjölskylduna á Beverly Wilshire Hotel, sem er næsta glæsihótel við Riviera Country Club, meðan hann spilar í Northern Trust Open.

Reyndar er dvalarstaður hans ekki með neitt vatn þannig að hann verður að fara í sturtu og raka sig á almenningssalernum.

Reyndar er heimili hans ekki einu sinni með fráveitu þannig að öll fjölskyldan þarf að fara á almenningssalerni til að gera þarfir sínar.

Heitasti kylfingur PGA Tour um þessar mundir býr nefnilega ásamt fjölskyldu í 43 feta Tiffin húsvagni sínum og sér ekkert að því að ganga á hverjum degi niður hæðina frá húsvagni sínum að almenningssturtu og salerni.  Maðurinn sem bara á þessu keppnistímabili PGA Tour hefir unnið sér inn $ 3,6 milljónir rakar sig síðan meðal ókunnugra.

„Okkur líður eins og við séum í háskóla aftur,“ segir eiginkona hans Erin.

Og Jimmy Walker finnst þessi spartanski lifnaðarháttur fjölskyldunnar bara fínn, þó ekki hafi verið frátekið fyrir þau það stæði fyrir húsvagninn sem þau óskuðu eftir, því venjulega er hægt að fara í sturtu og á klósettið og séð er fyrir öllum þægindum á þessu heimili fjölskyldunnar á hjólum.

Eftir sigurinn á AT&T Pebble Beach National Pro-Am, fóru Jimmy, Erin og tveir ungir synir þeirra í langan bíltúr suður til Los Angeles en þegar þau komu að húsbílastæði sínu, sem er í u.þ.b. 25 mínútna fjarlægð frá Riviera hafði pöntun þeirra víxlast og þau fengu ekki þær tengingar sem gerir húsbílinn þeirra að þeim lúxusbíl sem hann venjulega er.

En þetta hefir ekkert breytt neinu fyrir þau – þau halda fast við að búa í húsvagni sínum.

Sem stendur er Walker í 14. sæti þegar Northern Trust mótið er hálfnað, 5 höggum á eftir forystumanni 2. dags, Sang-Moon Bae og er hundóánægður með 2. hring sinn upp á slétt par, 71 högg.

„Dagurinn í dag (föstudagurinn 14. febrúar) var bara einn af þessum dögum. Ég var ekkert að slá vel, ég hafði ekkert frábæra stjórn yfir því sem var að gerast,“ sagði Walker, „en jú, ég er ánægður með að vera á ágætis stað fyrir helgina.“

En hvort sem dagurinn endar í pirringi eins og í gær, eða með sigri eins og á sunnudeginum fyrir viku á Pebble Beach, þá veit Jimmy að hann finnur það sem hann þarfnast í húsvagni sínum.

„Við elskum þetta,“ sagði Erin kona hans. „Maður verður að vera svolítið ævintýragjarn, en þetta gengur vel upp. Þetta er alveg eins og að búa í venjulegu húsi. Við erum m.a. með ísskáp, þvottavél og þurrkara.“

Jimmy og Erin eiga tvo stráka Mclain, sem er  3½ ára og Beckett, sem verður 1 ára í næstu viku. Jimmy keyrir húsvagninn, sem þau eru í þegar þvælst er á milli mótsstaða. Þegar um óvenjulangar leiðir er að ræða, þá flýgur Walker-fjölskyldan en lætur einhvern keyra húsvagninn fyrir þau á mótsstað.

„Með tvö lítil börn er þetta fyrirkomulag frábært,“ segir Erin. „Ég er ekki sú manngerð sem líkar það að pakka og taka upp úr töskum í hverri einustu viku. Það veldur bara stressi. Þetta heldur hlutunum meira í vana fyrir okkur. Jimmy er með sama rúmið og sama koddann. Við eldum þegar við viljum. Strákarnir geta leikið sér fyrir utan húsvagninn. Þeir eru ansi villtir. Þeim finnst gaman að leika sér með trukkana sína og eru skítugir upp fyrir haus.“

„Þetta er svo sannarlega ekki fyrir alla. Ef maður vill fá herbergisþjónustu á hverjum degi, þá er þetta svo sannarlega ekkert fyrir viðkomandi en það er að virka vel fyrir okkur.“

Þó strákarnir séu ungir þá skilur Mclain alveg að pabbi hans er rísandi stjarna. Hann upplifir öll fagnaðarlætin í kringum pabba sinn.  Honum finnst svakalega gaman að hlaupa út á flöt eftir að pabbi hefir sigrað.

„Í byrjun vikunnar segir Mclain „ég vil fara á flötina og faðma pabba aftur. Pabbi vinnur,“ segir Erin.  „Ég segi alltaf við hann: „það er nú frekar ólíklegt að það gerist Mclain“, en hann veit s.s. hvað á sér stað.“

Það eru strákarnir sem halda Jimmy á jörðinni. Eftir að hann vann á Pebble Beach hringdi Jimmy í náinn vin sinn í Carmel, sem á veitingastað og spurði hvort enn væri opið hjá honum. Vinur svaraði: „Já fyrir þig.“ Og síðan fagnaði fjölskyldan sigrinum þar ásamt vinum sínum.

„Þegar við komum aftur „heim“ í húsvagninn, höfðu strákarnir lognast út af,“ sagði Erin.  „Jimmy sagði: „Velkomin aftur til raunveruleikans.“

Það er svona sem heitasti kylfingur heims um þessar mundir býr.  Hann heldur sér í raunveruleikanum.

(Innskot Golf 1: Spurning hvort grein sem þessi hjá Golf Channel geti ekki orðið Jimmy Walker hættuleg?  Allskyns glæpamenn í Bandaríkjunum og Jimmy Walker fremur óvarinn í húsbíl og þar að auki með eiginkonu og 2 ung börn sín þar?  Hættan á að konu og/eða börnunum sé rænt eykst eða að fjölskyldunni sé unnið mein, þegar búið er fremur óvarið og auglýst að maðurinn eigi 3,6 milljónir bandaríkjadala.  Jimmy Walker er ekkert eins óþekktur og hann var hér áður fyrr! Hér áður fyrr gat hann kannski rakað sig eða farið í sturtu á almenningssalernum, en þetta gæti reynst honum hættulegt nú!!!  – Frægðin og það að auðgast hefir sínar svörtu hliðar – Það er auðvitað skemmtilegt og kannski að nokkru þægilegt að vera í húsbíl en Jimmy Walker getur ekki farið um meðal almennings eins frjálslega og áður og e.t.v. verður hann að hugsa um að hætta að búa í húsbíl á keppnisferðalögum sínum ?)