Valdís Þóra slær 1. höggið á glæsihringnum á Íslandsmótinu í höggleik 2012. Mynd: Golf 1.
Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 28. 2012 | 22:45

Íslandsmótið í höggleik – Valdís Þóra Jónsdóttir: „Geri mitt besta!“

Valdís Þóra leiðir fyrir lokahring Íslandsmótsins í höggleik. Valdís Þóra lék á 2 yfir pari í dag 72 höggum. Hún fékk 5 skolla (2., 4., 11., 13. og 15. braut) og 3 fugla (á 10., 12. og 16. braut). Samtals er Valdís Þóra búin að fá 9 fugla, 30 pör og 13 skolla og 2 skramba eftir 3 hringi. Samtals hefir Valdís Þóra leikið  á 8 yfir pari (71 75 72).

Valdís Þóra á 1 högg á Íslandsmeistarann í höggleik 2010, Tinnu Jóhannsdóttur, GK, fyrir lokabaráttuna á morgun.

Golf 1 tók örstutt viðtal við Valdísi Þóru:

Golf 1: Er eitthvað á hringnum sem stendur upp úr í dag?

Valdís Þóra: Já, fuglinn á 12. braut.  Ég var bara með fínt dræv og pitchaði inn og var hársbreidd frá því að höggið færi ofan í og ég fengi örn.  Það er ekki á hverjum degi sem það gerist á þessari braut!

Golf 1: Var eitthvað sem þú hefði viljað gera betur?

Valdís Þóra: Ég var ekki að pútta vel framan af en það skánaði.

Golf 1: Hvernig fannst þér Strandarvöllur í dag?

Valdís Þóra: Hann er skemmtilegur. Hann er erfiður, því hann er svo harður og maður þarf að hugsa í inná höggunum, maður getur ekki alveg eins dúndrað á pinnann.

Golf 1: Hvert er planið á morgun?

Valdís Þóra: Að gera mitt besta.