Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 21. 2012 | 11:00

Bestu par-3 brautir í heiminum (nr. 6 af 10)

Fimm af bestu par-3 holum í heiminum eru skv. þessari upptalningu í Bandaríkjunum. Nú vendum við okkar kvæði í kross og höldum í aðra heimsálfu,  Afríku.

Þar er ein þekktasta par-3 holan sú 19. á golfvelli  Legend Golf & Safari Resort, í Entabeni Safari Conservatory, Limpopo sýslu, í Suður-Afríku. Hún er bæði hæsta og lengsta par-3 brautin í heiminum þ.e. teigurinn er í 400 metra hæð á Hanglip Mountain og brautin er 361 metra löng, þ.e. á við stutta par-5 braut.

Eina leiðin til þess að komast upp á teig er með þyrlu og 1 milljón bandaríkjadala (u.þ.b. 120 milljónir króna) bíða fyrsta kylfingsins, sem nær holu í höggi á þessari hrikalegu holu, en engum hefir tekist það hingað til. Írski kylfingurinn Pádraig Harrington var fyrstur til að fá par á holuna og tveimur hefir tekist að fá fugl þ.á.m. krikkettleikmanninum Franklin Stephenson.

Flötin er í laginu eins og Afríka. Til þess að fylgjast með flugi boltans eru notaðar 4 tökuvélar og hver kylfingur fær 6 bolta, sem eru útbúnir með tracking chips, þ.e. rafeindaflögum sem auðvelda leit. Það kostaði u.þ.b. 741 bandaríkjadal (um 89.000 íslenskra króna) skv. verðskrá frá árinu 2009 að fá að spila holuna.

Flötin á 19. á Legends Golf & Safari Resort í Suður-Afríku er í laginu eins og Afríka.

Til þess að sjá myndskeið af tilraun kylfings til að fá ás á 19. í Legend Golf & Safari Resort SMELLIÐ HÉR: 

Margar af bestu par-3 holum í heiminum eru með upphækkaða teiga, sem gerir kylfuval erfitt og skapar drama sem sjaldnast er hægt að upplifa á öðrum holum.

Sumir kunna að segja að 19. hola á Legends telji ekki – hún sé sýningarhola – og ekki partur af 18 holu golfvelli.

Nefna mætti heila flóru af heimsklassa upphækkuðum par-3, sem allar ættu skilið að vera í upptalningu yfir bestu par-3 brautir heims.  Til þess að halda okkur í Afríku mætti byrja á  í dæmaskyni að nefna par-3 15.brautina á fimm stjörnu golfstaðnum Lemuria Constance á Seychelles eyjum.  Hafið í baksýn er bara hluti af algeru draumaútsýni.

Par-3 15. brautin á Le Muria Constance golfstaðnum á Seychelles eyjum

Margar flottar upphækkaðar par-3 eru í Evrópu. T.a.m. 7. holan á uppáhaldsgolfstað margra Íslendinga Las Colinas í Allicante á Spáni.

Flötin á par-3 7. brautinni á Las Colinas golfvellinum. Mynd: Golf 1

Þekktar eru par-3 brautir á Aphrodite Hills á Kýpur, þar sem oftar en ekki er slegið er af upphækkuðum teig og þá eru aðeins fáar nefndar:

Flöt á par-3 braut á Aprhodite Hills

Loks mætti nefna að slegið er af upphækkuðum teig á hinni 158 m, fjórtándu, par-3 braut Mahogany Run golfvallarins á St Thomas-eyju í Karabíahafinu, sem telst hluti „djöfla-þríhyrningsins“, en svo nefnast 13., 14. og 15 brautir vallarins til samans.  Útsýnið truflar jafnvel reyndasta golfara, svo fagurt er það. Kylfingar sem komast skammlaust frá þessum parti vallarins, fá sérstaka viðurkenningu í golfversluninni, þ.e. „I survived the Devil´s Triangle“-viðurkenninguna. Mahogany golfvöllurinn þykir meðal fegurstu og bestu golfvalla í karabíska hafinu og er fjölsóttur af forföllnum golfurum; meðal þeirra frægari eru Tiger Woods, John Travolta og Barack Obama.

Par-3 14. brautin á Mahogany Run á St. Thomas eyju í Karabíahafinu.