Ragnheiður Jónsdóttir | september. 9. 2012 | 15:00

Hver er kylfingurinn: Brandt Snedeker? (4. grein af 4)

Hér er komið að 4. og síðustu greininni um Brandt Snedeker.  Verður hér fjallað um gengi hans í ár og s.l. ár:

2011

Snedeker var óstöðugur í byrjun árs 2011 og komst ekki í gegnum niðurskurð á fyrsta móti sínu Bob Hope Classic, en síðan fylgdi hann því eftir með tveimur topp-10 áröngrum í röð þ.e. á Farmers Insurance Open og á Waste Management Phoenix Open. Síðan komst hann tvívegis ekki í gegnum niðurskurð og dró sig einu sinni úr móti þ.e. Honda Classic til þess að vera viðstaddur fæðingu fyrsta barns síns, dótturinnar Lily.

Hann sneri aftur á Túrinn eftir fæðinguna og frumburðurinn virðist hafa haft góð áhrif á Snedeker því hann varð í 4. sæti á Transitions Championship og varð síðan T-15 á fyrsta risamóti ársins the Masters. Vikuna þar á eftir átti Snedeker færi á að vinna annan PGA Tour titil sinn, í Valero Texas Open mótinu en gerði fjölda mistaka á seinni 9 á sunnudeginum, sem kostuðu hann sigur og síðan landaði hann einn 4. sætinu. Vikuna þar á eftir vann Snedeker hins vegar 2. titil sinn á PGA Tour á The Heritage þar sem hann vann sjálfan hr. 2011, Luke Donald, á 3. holu bráðabana. Snedeker var á 64 höggum á lokahringnum og knúði þar með fram umspil Luke. Í umspilinu fengu báðir par á fyrstu 2 holurnar, en þegar vipp Donald fyrir pari missti marks innsiglaði Snedeker sigurinnn. Með þessum sigri varð Snedeker nr. 38 á heimslistanum. Í nóvember 2011 gekkst Snedeker undir skurðaðgerð til þess að laga meinsemd í mjöðm.  Hann var því frá keppni í 6-8 vikur til loka ársins 2011. Snedeker vildi þó koma þessu frá til þess að vera í formi fyrir 2012.  Hann varð í 14. sæti á peningalista PGA Tour 2011.

2012

Snedeker vann þriðja PGA Tour titil sinn á Farmers Insurance Open í Torrey Pines. Hann byrjaði lokahringinn 7 höggum á eftir forystumanninum Kyle Stanley, en eftir lokahring upp á 67 komst hann í bráðabana, sem  hann sigraði í. Báðir voru þeir Stanley með fugl á fyrstu holu umspilsins en á 2. holunni missti Stanley par-pútt sitt s.s. frægt er orðið. Við sigurinn komst Snedeker á topp-20 á heimslistanum. Hann varð hins vegar að draga sig úr US Open 2012, vegna rifbeinsmeiðsla.

Snedeker komst aftur í fréttirnar eftir frækinn æfingahring fyrir Opna breska þar sem hann fékk ás/albatross á 336 yarda, par-4 16. brautinni á Royal St. Annes & Lytham golfvellinum. Á fyrstu 2 hringjum mótsins var hann á 66 64 og jafnaði þar með met um lægsta skor á 36 fyrstu holunum á Opna breska. Hann lauk hins vegar keppni með hringjum upp á 73 og 74 og varð í 3. sæti ásamt Tiger Woods á 3 undir pari, 4 höggum á eftir sigurvegaranum Ernie Els. Loks kynnti fyrirliði bandaríska Ryder Cup liðsins 2012, Davis Love III að Brandt Snedeker væri val sitt sem fyrirliða, í bandaríska Ryder Cup liðið. Snedeker kom valið að sögn á óvart en sagðist ætla láta Love líta út eins og snilling fyrir að hafa valið sig.

Einkalíf

Hér að lokum þessa 4 greina ágrips um eitt af „villtu kortum“ Davis Love III er ætlunin að minnast stuttleg á einkalíf kortsins villta. (Villta kortið er bein þýðing úr ensku „wildcard“ – þ.e. val Davis Love III á  4 leikmönnum í Ryder bikars lið Bandaríkjanna 2012 – en fyrirliði bandaríska liðsins á ávallt val um 4 sem hann vill að séu í liði sínu og þar sem mikil óvissa ríkir um þá eru þeir nefndir „villtu kortin“ eða „wild cards“)

Snedeker býr í Nashville, Tennessee ásamt konu sinni Mandy og dóttur Lily, sem fæddist 3. mars 2011. Þjálfari hans þessa stundina er Todd Anderson í the Sea Island Golf Club.

Bróðir Snedeker, Haymes Snedeker, vann raunveruleikagolfþáttinn á Golf Channel, „The Big Break X: Michigan og hlaut m.a. í verðlaun rétt til þátttöku í Q-school og PGA mótaröðinni.

Heimild: Wikipedia