Tinna Jóhannsdóttir, Íslandsmeistari í höggleik 2010 – Spilað var í Kiðjaberginu og ekki að undra að eitt minnisstæðasta högg Tinnu hafi verið á 18. þar! Mynd: gsimyndir.net
Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 7. 2012 | 20:00

Viðtalið: Tinna Jóhannsdóttir, GK.

Tinna Jóhannsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði, hefur á morgun keppni á Banesto Tour Valencia mótinu á LET Access Series í Valencia á Spáni.  Mótið  er 3 daga, stendur dagana 8.-10. nóvember.  Hér fer viðtalið við Tinnu:

Tinna Jóhannsdóttir, GK. Mynd: LET

Tinna Jóhannsdóttir, GK. Mynd: LET

Fullt nafn: Tinna Jóhannsdóttir.

Klúbbur: Keilir.

Hvar og hvenær fæddistu?  Ég er fædd í Reykjavík, 1986.

Hvar ertu alin upp? Ég hef átt heima í Garðabænum allt mitt líf.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf? Ég á risastóra og frábæra fjölskyldu og held það sé fljótlegra að segja að amma mín er sú eina sem spilar ekki golf í minni fjölskyldu.

Hvenær byrjaðir þú í golfi? Ég var 12 þegar ég fór á námskeið hjá Keili.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Mér fannst það skemmtilegt og svo var öll famelían í þessu.

Í hvaða starfi/námi ertu? Ég er atvinnukylfingur.

Keiliskylfingarnir Einar Haukur Óskarsson og Tinna Jóhannsdóttir, sigurvegarar á 6. og síðasta móti á Eimskipsmótaröðinni 2012, Síma mótinu. Mynd: gsimyndir.net

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?  Skógar-.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur? Mér finnst holukeppni mjög skemmtileg í sveitakeppni en það er fátt sem toppar Íslandsmót í höggleik.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?  Keilir og Vestmannaeyjar.

Sólarlag á Hvaleyrinni, öðrum uppáhaldsgolfvelli Tinnu á Íslandi og einum af 100 bestu golfvöllum Evrópu. Mynd: Golf1

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum? Þeir eru þó nokkrir en ef spurt er um topp tvo þá eru það Meadow Club (í Kaliforníu) og völlurinn hjá Stanford hefur líka alltaf verið í uppáhaldi.

Frá Meadows golfvellinum í Kaliforníu, einum af uppáhaldsgolfvöllum Tinnu erlendis.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Völlurinn sem ég spilaði í seinustu viku í Grikklandi var skemmtilega öðruvísi. Hann var stuttur en mikið af blindum höggum og urð og grjót út um allt þannig að það var nauðsynlegt  að hitta brautina.

Golfvöllur Golfklúbbs Krítar í Hersonissos í Grikklandi er meðal sérstæðustu golfvalla sem Tinna hefur spilað.

Hvað ertu með í forgjöf?  0.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   64 á Onion Creek í Texas.

Hvert er lengsta drævið þitt?  Ég hef ekki hugmynd. Minnistæðasta drævið er þó klárlega á 18. braut í Kiðjaberginu á Íslandsmótinu 2010.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Það myndi vera Íslandsmeistaratitillinn 2010.

Birgir Leifur og Tinna – Íslandsmeistarar í höggleik 2010. Mynd: gsimyndir.net

Hefir þú farið holu í höggi?  Ég hef farið þrisvar holu í höggi.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?   Allt mögulegt, bara svona það sem er til í ísskápnum heima á þeim tíma.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Ég spilaði fótbolta þar til við áttum að fara spila á stórum velli, það fannst mér fullmikil hlaup og lét það gott heita. Svo var ég í handbolta til 17-18 ára aldurs.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?  Ég er voðalega lítil uppáhalds manneskja 🙂 mér finnst góð pizza alveg jafn góð og vel eldaður fiskur. Ég drekk voða mikið af vatni en finnst engifer kristall plús góður inná milli. Ég er alæta á tónlist nema kannski þungarokk og sama með bíómyndir nema kannski hrollvekjur. Þessa dagana er ég að lesa mikið af svona historical fiction, sögum sem gerast allt frá 11. til 19. aldar.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?   Adam Scott og Carlota Ciganda.

Hvert er draumahollið?  Akkurat núna myndi það vera Afi. Hann er flottastur.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?  Ég er með Titleist Driver, 3w og 5w. Titleist hybrid 24 og 27 gráður. Titleist járn 6-PW. Callaway wedge-a 52/56/60 og TaylorMade pútter. Þessa dagana er pútterinn að standa fyrir sínu.

Tinna Jóhannsdóttir, GK. Mynd: Golf 1

Hefir þú verið hjá golfkennara? Ég byrjaði hjá Herði Arnars. En hef unnið mest með Bjögga og Staffan.

Ertu hjátrúarfull?  Neibb.

Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu? Bara njóta þess.

Hvað finnst þér best við golfið?  Það eru möguleikarnir sem golf hefur uppá að bjóða. Bæði í lífinu og svo bara það sem er hægt að framkvæma með kylfu og bolta.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?  Í keppnum er þetta mjög mikið andlegt. Undirbúningurinn fer í að fínpússa tæknina og setja upp leikplan svo þarf bara traust og trú á verkefninu þegar í keppnina er komið.

Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum almennt?  Íslenskir kylfingar eru mestu röflarar landsins (ég meðtalin) og vildi að við gætum kannski bara andað inn og út og eytt orkunni í eitthvað betra og skemmtilegra.

Hvernig er að spila á LET Access? Þetta var svoldið spes fyrst. Maður var eins og nýji krakkinn í skólanum og sat bara einn í hádeginu 🙂 en þetta eru allt mjög fínar stelpur. Vellirnir og umgjörðin alveg frábær þó það mætti alveg vera hærra verðlaunafé.

Hvernig leggst mótið í Valencia í þig? Það leggst mjög vel í mig. Völlurinn er langur og á eftir að reyna mikið á stutta spilið.

Spilað er á morgun á golfvelli Golf Club Escorpion í Valencia. Völlurinn er sérstakur fyrir þær sakir að hann er í laginu eins og sporðdreki (sp. escorpion). Á vellinum er mikið af trjám, vötnum og fallegt útsýni á Sierra Calderona.

Hvernig leggst í úrtökumótið í Marokkó í þig? Ég er mjög spennt fyrir því en er ekki alveg komin svo langt í huganum. Fyrst að klára Valencia

Hver er munurinn á því að spila í bandaríska háskólagolfinu og síðan á LET Access? Risastór. Í háskólagolfinu ertu með lið af fólki á bakvið þig í hverju skrefi. Hérna getur maður bara treyst á sjálfan sig í sambandi við allan undirbúning. Golfið er samt alltaf eins, slá boltann frá A til B.

Ertu með einhver ráð fyrir kylfinga í dag sem eru að spá í að læra og spila golf með háskólagolfliði í Bandaríkjunum? Hefja undirbúning sem fyrst og sætta sig við pappírsflóðið og vinnuna sem fylgir. Þetta er upplifun sem maður býr að alla ævi og ekki bara í sambandi við golfid. Ég myndi ráðleggja öllum að prófa. Maður getur alltaf þá bara farið heim eftir árið reynslunni ríkari.

Að lokum: Hver eru framtíðarplönin hjá þér?
Ég hef lært að skipuleggja ekkert of langt fram í tímann. Maður veit aldrei hvað gerist næst 🙂