Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 13. 2012 | 21:30

Eimskipsmótaröðin (2): Viðtal við Þórð Rafn sigurvegara Egils Gulls mótsins í Eyjum

Þórður Rafn Gissurarson, GR, sigraði glæsilega á 2. móti Eimskipsmótaraðarinnar 2012, Egils Gull mótinu úti í Eyjum s.l. helgi.  Af því tilefni  gaf Þórður Rafn sér tíma til að svara nokkrum spurningum Golf 1, þó hann væri að fara af landi brott til Düsseldorf í Þýskalandi, til þess að keppa á Schloß Moyland Golfresort Classic mótinu á EPD mótaröðinni, sem hefst 15. júní n.k. . Lengra viðtal við Þórð Rafn birtist n.k. helgi.

Golf1: Fyrst nokkrar spurningar vegna sigurs þíns í Vestmannaeyjum: Hvað varstu að hugsa á 16. braut á lokahringnum þegar þú fékkst skrambann – hélstu að mótið væri tapað?

Þórður Rafn: Ég hélt að Axel (Bóasson) væri ennþá að leiða mótið og að ég yrði að spila aggressíft til að næla mér í fugl og setja meiri pressu á lokahollið. Boltinn lá ekkert sérstaklega en ég lét vaða og því miður fór hann í þá einu átt sem hann mátti ekki fara. Ég hugsaði með mér að ég hefði kannski verið að kasta frá mér möguleika á sigri en ákvað að gefa ekkert eftir og halda í vonina.

Golf 1: Hvernig náðir þú að rífa þig upp og fá 2 fugla á lokaholunum – vissir þú að þú ættir möguleika á að sigra á 17./18.?

Þórður Rafn: Eftir skrambann á 16. holu var ég harðákveðinn í því að fá fugl á 17. og 18. holu. Ég vissi alveg að par á 17. holu væri gott skor og ef ég nældi mér í fugl þar væri ég að taka eitt högg til baka. Á 18. holu lét ég vaða á pinnann í 2. höggi enda ekkert annað í stöðunni. Ég vissi ekki hvernig leikar stóðu fyrr en eftir að ég setti niður fuglinn á 18. holu.

Golf 1: Hafði vindurinn áhrif á leik þinn, sérstaklega á 1. hring á fyrri degi?

Þórður Rafn: Vissulega hafði hann áhrif. Það var allt önnur taktík í gangi og par var gott skor á hverri holu. Maður þurfti að vera skynsamur í ákvörðunartöku og koma sér fyrir þannig fyrir á vellinum að ég gæti komist nálægt pinna í innáhöggunum.

Golf 1: Voru viðbrigði að koma frá Tyrklandi/Marokkó/Þýskalandi á mótum EPD og spila síðan hér heima – hver ef einhver er munurinn?

Þórður Rafn: Golf í Tyrklandi og Marokkó er allt öðruvísi heldur en í Þýskalandi og heima. Í Tyrklandi og Marokkó var dagskráin mjög þétt og spilað eða æft á hverjum degi. Þegar eitt mót var búið þá tók við æfingahringur daginn eftir fyrir næsta mót o.s.frv. Það var orðið frekar þreytandi að vera allan daginn upp á hóteli, sérstaklega í Marokkó þar sem ég fann ekki fyrir miklu öryggi fyrir utan hóteldyrnar. Þýskaland er allt annað mál. Þar er góður matur, gott fólk og fínir vellir.
Vellirnir erlendis eru í miklu betra ástandi heldur en heima á Íslandi, sérstaklega flatirnar og svunturnar í kringum þær.

Golf 1: Er þetta fyrsti sigur þinn á Eimskipsmótaröðinni?

Þórður Rafn: Þetta er 2. sigur minn á Eimskipsmótaröðinni. Sá fyrsti kom 2008 þegar ég sigraði á Akranesi eftir að hafa unnið Magnús Lárusson í bráðabana.

Golf 1: Lýstu tilfinningunni þegar ljóst var að þú hefðir unnið?

Þórður Rafn: Það kom mér virkilega á óvart. Þó svo að ég hefði spilað gott golf þá var ég frekar viss um að ég hefði ekki gert nóg til að vinna. Ég varð mjög ánægður þegar það var á kristaltæru að ég hefði farið með sigur af hólmi.

Golf 1: Hver eru markmiðin fyrir sumarið – ætlar þú að keppa áfram á Mótaröðinni?

Þórður Rafn: Markmiðin eru bæði Íslandsmótin, sveitakeppnin og að sjálfsögðu að komast áfram í úrtökumótinu fyrir evrópsku mótaröðina. Ég mun spila flest mótin á Íslandi í sumar.